Svæðisbundið Farsældarráð Austurlands var formlega stofnað við athöfn í Minjasafninu á Egilsstöðum í gær (1. desember). Í ráðinu eiga sæti fulltrúar allra sveitarfélaga á Austurlandi, skóla, heilbrigðis- og velferðarþjónustu, öryggisþjónustu, íþróttahreyfinga, foreldra og ungmenna. Ráðið verður sameiginlegur vettvangur til að samhæfa þjónustu við börn og fjölskyldur í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021).
Markmið ráðsins er að gera þjónustu skýrari, samfelldari og skilvirkari, þannig að börn og fjölskyldur þurfi síður að leita sjálf á milli kerfa heldur finni að þjónustan styður þau.
Við undirbúning ráðsins var sérstaklega leitað til ungmennaráða sveitarfélaganna. Á stofnfundinum flutti Styrmir Jónsson, fulltrúi ungmennaráðs Vopnafjarðar, ávarp og lýsti ánægju með stofnun ráðsins.
„Við í ráðinu höfum sett okkur vel inn í þetta verkefni og styðjum það heils hugar. Auðvitað er vel farið með börn og unglinga á Austurlandi en það má alltaf gera betur. Með stofnun þessa ráðs erum við á réttri leið. Ég er sérstaklega ánægður að ungmennaráðunum hafi verið fengið raunverulegt hlutverk, því við sjáum oft hluti sem fullorðnir taka ekki eftir,“ sagði Styrmir.

Barna- og fjölskyldustofa sendi ráðinu hvatningarorð sem Nína Hrönn Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Farsældarráðs Austurlands las upp en í þeim kom fram að stofnun þess væri stórt framfaraskref sem gæti styrkt aðdráttarafl Austurlands fyrir fjölskyldur.
„Að stofna farsældarráð hér í dag er stærra skref en við gerum okkur grein fyrir. Þetta verður hvatning til að gera Austurland enn vænlegra til búsetu. Þegar „börnin“ snúa heim sem fullorðin, eftir nám eða annað – er það vegna þess að þau sem börn fundu fyrir samstöðu, samheldni og gerð áætlana sem skiptu máli fyrir fjölskyldur þeirra. Þetta er dagurinn sem sýnir að Austurland stendur saman og horfir fram á veginn,“ sagði m.a. í kveðju Barna- og fjölskyldustofu.
Bryndís Fiona Ford, framkvæmdastjóri Austurbrúar, las upp kveðju frá Guðmundi Inga Kristinssyni, mennta- og barnamálaráðherra, en hann átti ekki heimangengt í gær.
„Svæðisbundnum farsældarráðum fjölgar óðum og með Austurlandi bætist nú stór landshluti við. Við færumst nær markmiðinu um samþætta, snemmtæka og heildstæða þjónustu við börn og fjölskyldur. Ég óska sveitarfélögunum á Austurlandi og öðrum hlutaðeigandi til hamingju með áfangann.“
Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði stofnun ráðsins mikilvægt skref í átt að samræmdri þjónustu:
„Með sameiginlegu ráði styrkjum við samstarf sveitarfélaganna og tryggjum sameiginlega sýn á þjónustu við börn og fjölskyldur á Austurlandi.“
Laufey Þórðardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, tók undir mikilvægi samvinnu:
„Svæðisbundið farsældarráð mun hjálpa okkur að brúa bilið milli þjónustukerfa og efla snemmtækan stuðning á svæðinu,“ sagði hún.
Fulltrúar stofnana, sveitarfélaga og unga fólksins á Austurlandi á stofnfundi Farsældarráðs. Myndir: Múlaþing.

Farsældarráð Austurlands mun á næstu mánuðum kortleggja stöðu barna á Austurlandi, greina helstu áskoranir og tækifæri og móta fjögurra ára aðgerðaráætlun sem nær til allra lykilþátta farsældar: menntunar, heilsu og vellíðunar, félagslegrar stöðu, lífsgæða, öryggis og samfélagslegra tengsla.
Aðgerðaráætlunin verður unnin í víðtæku samráði og mun leggja grunn að samræmdri og markvissri þjónustu við börn og fjölskyldur um allt Austurland.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn