Fulltrúar frá íslenskum ferðaskrifstofum tóku þátt í þriggja daga FAM-ferð (kynnisferð) Áfangastaðastofu Austurlands í síðustu viku. Með í för voru starfsmenn frá Erlingsson Naturreisen, Go North, Hey Iceland, Iceland Encounter og Icelandair. Markmiðið var að kynna vetrarupplifanir og ferðaþjónustu á Austurlandi og styrkja þannig markaðssetningu svæðisins sem vetraráfangastaðar.
FAM-ferðir skipta lykilmáli í kynningarstarfi landshlutans, þar sem þær skapa traust og raunverulega tengingu milli ferðasala, þjónustuaðila og áfangastaðarins sjálfs. Með því að upplifa svæðið í eigin persónu fá ferðasérfræðingar betri innsýn í hvað Austurland hefur upp á að bjóða sem gerir þeim kleift að miðla áfangastaðnum af meiri sannfæringu til sinna viðskiptavina. Ferðir sem þessar styrkja jafnframt samstarf innan ferðaþjónustunnar, auka þekkingu á fjölbreyttu framboði og skapa tækifæri fyrir nýjar vörur sem nýtast í alþjóðlegri markaðssetningu. Fyrirtækin sem taka þátt í slíkum ferðum eru því líklegri til að senda ferðamenn á Austurland, ekki bara yfir sumartímann, heldur allt árið um kring.
Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með skipulag og dagskrá ferðarinnar. Á öllum viðkomustöðum fengu þau persónulegar og fagmannlegar móttökur sem þeir sögðu einkenna ferðaþjónustuna á Austurlandi. Þátttakendur hrósuðu einnig sterku og samstilltu samstarfi ferðaþjónustuaðila á Austurlandi, þar sem margir ólíkir aðilar vinna saman að heildstæðum upplifunum fyrir ferðamenn. Þeir tóku eftir skýrum áherslum í sjálfbærni, allt frá matvælum og staðbundinni þjónustu, til náttúruverndar og frásagna leiðsögumanna. Slík nálgun styrkir gæði upplifana og gerir ferðasölum auðveldara að bjóða áreiðanlegar og umhverfisvænar ferðir til svæðisins.
Á meðan á ferðinni stóð kom einnig fram hve mikið þátttakendur voru hrifnir af fjölbreyttum upplifunum á Austurlandi yfir vetur, upplifanir sem þeir voru spenntir að kynna betur og senda sína kúnna í framtíðinni.
Alexandra Tómasdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn