Fyrri hluti fræðslufundaraðarinnar Hlýtt heimili er nú yfirstaðinn, en fundirnir eru samstarfsverkefni Eyglóarverkefnis Austurbrúar, Búnaðarsambands Austurlands og Umhverfis- og orkustofnunar. Á fjórum fundum – frá Vopnafirði til Djúpavogs – var fjallað um hvernig heimili geta dregið úr húshitunarkostnaði og valið hagkvæmar, umhverfisvænar lausnir.
Á fundunum fluttu sérfræðingar fræðsluerindi um varmadælur, orkunýtni og þá styrki sem standa íbúum til boða. Hrafnkatla Eiríksdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, hóf fundina á erindi þar sem hún fór yfir stöðu austfirskra heimila í raforkukostnaði og hvernig hlutföll hitagjafa á svæðinu eru ólík landsmeðaltalinu. Hörn Halldórudóttir Heiðarsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun, kynnti styrktækifæri í Loftslags- og orkusjóði og þau úrræði sem heimili og fyrirtæki geta nýtt. Axel Michelsen, sérfræðingur í orkunýtni hjá Umhverfis- og orkustofnun, fór yfir ávinning varmadæla, tæknileg atriði og breytt fyrirkomulag styrkja – þar á meðal nýjan sólarsellu- og orkuöflunarstyrk.
Húsfyllir var á Vopnafirði og Breiðdalsvík og góð mæting annars staðar. Fundargestir tóku virkan þátt í samtalinu og spurningunum rigndi yfir sérfræðingana. Áhuginn á hagkvæmri húshitun og orkusparnaði hefur sjaldan verið meiri, og margir lýstu yfir ánægju með að fá skýrar útskýringar á flóknum reglum og valkostum.
Hrafnkatla Eiríksdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segir nokkur málefni hafa verið ofarlega í umræðunni:
„Fólk var mjög ánægt með þær breytingar sem hafa orðið á styrkjakerfinu – en fæstir höfðu heyrt af þeim. Áður fyrr þurfti fólk að afsala sér niðurgreiðslu á rafmagni í 15 ár til að fá varmadælustyrk frá ríkinu. Í dag færðu styrkinn og heldur niðurgreiðslunni, þannig að áhættan hefur færst frá einstaklingnum yfir til ríkisins. Þetta er gífurleg breyting og fólk var greinilega fegið að heyra það skýrt.“
Hrafnkatla segir einnig að áhyggjur hafi komið fram varðandi möguleg aukagjöld þegar raforkusala minnkar eftir uppsetningu varmadæla:
„Þessir hlutir eru á viðkvæmu stigi og skýrast betur á næstu mánuðum. En umræðan var málefnaleg og hjálpaði okkur að sjá hvar þörf er á frekari skýringum og upplýsingagjöf.“
Fræðslufundunum verður framhaldið í byrjun næsta árs. Þá verður áfram fjallað um orkusparnað, valkosti í húshitun og styrktækifæri sem heimili geta nýtt sér.
Fundirnir í janúar verða á eftirfarandi stöðum:
12:00 – Végarður, Fljótsdal
16:00 – Fróðleiksmolinn, Reyðarfirði
20:00 – Brúarás, Jökulsárhlíð
12:00 – Fjarðaborg, Borgarfirði eystri
Austurbrú og samstarfsaðilar þakka frábær viðbrögð á fyrstu fundunum og hlakka til að halda áfram samtalinu við íbúa Austurlands í janúar.
Myndatexti: Hrafnkatla flytur erindi fyrir fullu húsi í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn