Nýr menningarsamningur milli ríkisins, Austurbrúar og sveitarfélaganna Múlaþings og Fjarðabyggðar var undirritaður í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði 11. desember. Samningnum er ætlað að styrkja menningarinnviði á Austurlandi og auka fyrirsjáanleika í rekstri menningarmiðstöðva á svæðinu.
Með samningnum er stuðningur við menningarmiðstöðvar landshlutans tryggður til næstu ára. Menningarstofa Fjarðabyggðar, Skaftfell á Seyðisfirði og Sláturhúsið Menningarmiðstöð hafa áður notið stuðnings og nú bætist Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði við sem fjórða menningarmiðstöðin á Austurlandi.
Í samningnum er kveðið á um að framlag ríkisins aukist jafnt og þétt út samningstímann og verði 76 milljónir króna árið 2029. Gert er ráð fyrir að framlag sveitarfélaganna aukist í takt við framlag ríkisins og með því sé rekstrargrundvöllur menningarmiðstöðvanna styrktur til næstu ára. Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, segir markmið samningsins vera að tryggja jafnt aðgengi að menningu óháð búsetu.
„Menning er ekki bara lífsgæði, menning er límið í hverju samfélagi – hvar sem við erum og hver sem við erum,“ sagði ráðherra þegar samningurinn var undirritaður og benti á að menning skipti miklu þegar fólk velji sér stað til búsetu. Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu hefur jafnframt verið greint frá því að unnið verði að sambærilegum menningarsamningum við fleiri landshluta á næstu árum, þar sem byrjað er á þeim svæðum sem lengst eru frá höfuðborgarsvæðinu.
Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir undirritun samningsins stórt skref fyrir Austurland. „Hann styrkir menningarinnviði okkar og gerir fjármögnun menningarmiðstöðvanna mun fyrirsjáanlegri til næstu ára. Það skiptir samfélagið okkar miklu að geta byggt upp öflugt menningarlíf um allt Austurland og það er sérstaklega ánægjulegt að Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði bætist nú í hópinn sem fjórða menningarmiðstöðin.“
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, segir samkomulagið skipta sköpum fyrir rekstur menningarmiðstöðvanna: „Starfsemi menningarmiðstöðvanna er gríðarlega mikilvæg fyrir Austurland. Þar hafa verið sköpuð fjölbreytt menningarverkefni og aðstaða sem dregur til sín listafólk víða að af landinu. Þá sinna miðstöðvarnar barnamenningu og fræðslustarfi af myndarbrag auk þess sem þær eru mjög mikilvægar fyrir hvers kyns grasrótarstarf á sviði lista og menningar. Samkomulagið tryggir að miðstöðvarnar geta áfram verið þessir máttarstólpar í menningarlífi svæðisins og sinnt hlutverkum sínum, hver á sínu sviði.“
Mynd að ofan: F.v. Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri Múlaþings, Bryndís Fiona Ford, framkvæmdastjóri Austurbrúar – SSA, Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, undirrituðu samninginn í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði í síðustu viku.
Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá Austurbrú, segir að það hafi verið löng og markviss vinna að baki því að Sköpunarmiðstöðin yrði hluti af samningnum. „Það hefur verið sameiginleg sýn á Austurlandi í langan tíma að byggja upp nokkrar sterkar menningarmiðstöðvar fremur en eina. Sköpunarmiðstöðin hefur unnið mjög öflugt og óeigingjarnt starf í langan tíma og það var löngu tímabært að hún yrði hluti af þessum samningi.“
Hún segir jafnframt að samningurinn skapi traustan grundvöll til framtíðar.
„Sköpunarmiðstöðin styrkir heildina með áherslu á skapandi greinar, vinnustofur, listamannadvalir og viðburði. Með nýjum samningi er tryggt fjármagn frá ríki og sveitarfélögum til næstu fjögurra ára, sem skapar sterkan og fyrirsjáanlegan grundvöll fyrir áframhaldandi samstarf og uppbyggingu lista og menningar á Austurlandi.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn