Hádegiserindi Forvitinna frumkvöðla hefjast á ný eftir hlé eftir áramót þegar fjallað verður um samfélagslega nýsköpun og hlutverk hennar í byggðaþróun. Fyrsti fyrirlestur ársins, „Forvitnir frumkvöðlar: Þegar íbúar móta framtíðina – samfélagsleg nýsköpun í þágu byggðaþróunar“ fer fram á Teams þriðjudaginn 6. janúar klukkan 12 á hádegi.
Athugið að viðburðurinn er þátttakendum að kostnaðarlausu en áhugasöm geta skráð sig til þátttöku hér.
Um hvað fjallar fyrirlesturinn? Jú, samfélagsfrumkvöðlar hafa haft veruleg áhrif á líf og þróun byggða víða um land. En hvað felst í samfélagslegri nýsköpun? Hver er munurinn á henni og annarri nýsköpun – og hvernig nýtist hún sérstaklega í dreifðum byggðum? Þessum spurningum verður velt upp í fyrirlestrinum, þar sem jafnframt verður fjallað um hvernig atvinnuráðgjafar landshlutanna geta stutt við samfélagsdrifin verkefni.
Vestfjarðastofa hefur tekið þátt í evrópska samstarfsverkefninu MERSE undanfarin tvö ár sem miðar að því að efla samfélagslega nýsköpun í dreifðum byggðum. Í erindinu munu Steinunn Ása Sigurðardóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir kynna helstu niðurstöður verkefnisins og þann lærdóm sem dreginn hefur verið af þátttökunni, með áherslu á hvað nýtist beint í íslensku samhengi.
Þátttakendur fá innsýn í hvernig samfélagsleg nýsköpun getur leitt til jákvæðra breytinga í byggðum, læra hvað aðgreinir samfélagsfrumkvöðla frá öðrum og sjá hvernig landshlutasamtökin geta stutt við samfélagsdrifnar hugmyndir. Fyrirlesturinn veitir bæði innblástur og hagnýta sýn fyrir alla sem hafa áhuga á byggðaþróun og nýjum leiðum til framfara.
Hádegiserindi Forvitinna frumkvöðla hafa verið haldin fyrsta þriðjudag í mánuði yfir vetrartímann af landshlutasamtökunum Austurbrú, SASS, SSS, SSNE, SSNV, SSV og Vestfjarðastofu. Þetta er fyrsti fyrirlestur ársins af sex sem verða haldnir mánaðarlega fram í júní.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn