Sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi nýta sér þjónustuna „fræðslustjóri að láni“ sem Austurbrú býður upp á til að byggja upp markvissa og raunhæfa sí- og endurmenntun fyrir starfsfólk. Verkefnið felur í sér að Austurbrú kemur á vinnustaðinn, greinir fræðsluþarfir í samráði við starfsfólk og stjórnendur og leggur grunn að fræðsluáætlun sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum á hverjum vinnustað.
Hrönn Grímsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segir lykilatriði að byrja á hlustun. Í fræðsluþarfagreiningunni er rætt við allt starfsfólk, óháð stöðu, og notast við aðferðafræði sem miðar að því að draga fram óskir, áherslur og raunverulegar þarfir hópsins. Hún segir mikilvægt að utanaðkomandi aðili leiði greininguna, þar sem það skapi oft meira traust og gefi hlutlægari mynd af stemningu og menningu á vinnustaðnum.
„Við finnum oft að starfsfólk er mun opnara þegar það fær tækifæri til að segja sína skoðun í þessu ferli. Það skilar sér síðan í fræðslu sem fólk upplifir sem viðeigandi og gagnlega,“ segir Hrönn. Hún bætir við að þessi nálgun auki líkur á virkri þátttöku og því að fræðslan nýtist til lengri tíma.
Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, verkefnastjóri, sem flestir þekkja sem Bobbu, segir verkefnið ekki snúast eingöngu um einstök námskeið heldur heildræna nálgun á fræðslumál. Eftir að greining liggur fyrir er sett fram fræðsluáætlun sem stjórnendur taka afstöðu til og ef hún er samþykkt annast Austurbrú skipulag og framkvæmd fræðslunnar í nánu samstarfi við fyrirtækið.
Bobba segir að með þessu móti verði fræðslan markvissari og betur samþætt daglegu starfi. „Við erum ekki að koma með tilbúna pakka, heldur vinna með fyrirtækjunum út frá þeirra veruleika,“ segir hún.
Bobba bendir á að kostnaðarþátturinn sé oft minni hindrun en margir halda. Fræðsluþarfagreiningin sjálf er fyrirtækjum að kostnaðarlausu, að því gefnu að þau uppfylli skilyrði starfsmenntasjóða. Fyrirtæki leggja út fyrir námskeiðskostnaði en geta síðan fengið endurgreitt stóran hluta hans, oft á bilinu 70–90 prósent. Austurbrú getur aðstoðað við styrkumsóknir og aðra umsýslu í kringum ferlið.
Reynslan af verkefninu hefur verið mjög jákvæð. Sem dæmi nefnir Bobba samstarf við Síldarvinnsluna, þar sem fræðsluáætlanir voru sniðnar bæði að sjómönnum og starfsfólki í landi. Þar varð til fjölbreytt fræðsla sem spannaði allt frá öryggis- og heilbrigðismálum til stjórnendafræðslu og hagnýtra námskeiða sem ekki tengdust starfinu beint, en styrktu einstaklingana og teymið í heild.
„Við sjáum að fyrirtæki meta það mikils að fá aðhald, yfirsýn og að einhver haldi utan um ferlið frá upphafi til enda,“ segir Bobba. Hún bætir við að Austurbrú búi yfir víðtækri reynslu í vali á fræðsluaðilum og skipulagningu sem létti verulega álagi af stjórnendum.
Þjónustan „fræðslustjóri að láni“ hentar jafnt stórum sem smáum fyrirtækjum og jafnvel hópum smærri fyrirtækja sem vilja taka höndum saman. Markmiðið er að valdefla starfsfólk, efla starfsánægju og stuðla að sterkari vinnustaðamenningu til framtíðar.
Ef fyrirtækið þitt hefur áhuga á að fá aðstoð við markvissa uppbyggingu á sí- og endurmenntun eða fá stök sérsniðin námskeið, hvetur Austurbrú þig til að hafa samband. Ráðgjafar Austurbrúar veita fyrirtækjum leiðsögn í ferlinu, aðstoða við styrkumsóknir til starfsmenntasjóða og styðja við að skapa öfluga og vel skipulagða fræðslustarfsemi á vinnustaðnum.
Hrönn Grímsdóttir
Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn