Hin árlega ferðakaupstefna Mannamót Markaðsstofa landshlutanna fer fram í Kórnum í Kópavogi á fimmtudaginn (15. janúar) og er einn af lykilviðburðum Ferðaþjónustuvikunnar. Mannamót hafa um árabil verið mikilvægur vettvangur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni til að kynna þjónustu sína fyrir ferðaþjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu og efla faglegt tengslanet innan greinarinnar.
Í ár taka 35 fyrirtæki víðsvegar frá Austurlandi þátt í Mannamótum og endurspegla þau þá fjölbreytni og grósku sem finna má í ferðaþjónustunni í landshlutanum. Að venju mæta þau með samræmt markaðsefni sem styrkir ímynd Austurlands sem heildstæðs og sterks áfangastaðar.
Á Mannamótum í ár verða um 250 sýnendur frá sex landshlutum. Sýningarsvæðinu er skipt upp eftir landshlutum og gefst gestum þannig kostur á að „ferðast um landið“ á einum stað og kynnast því besta sem íslensk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða. Slíkt fyrirkomulag hefur reynst afar árangursríkt, bæði fyrir sýnendur og þá sem sækja kaupstefnuna.
Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir er verkefnastjóri ferðamála hjá Austurbrú. Hún segir Mannamót skipta miklu máli fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni. Hún bendir á að viðburðurinn skapi einstakan vettvang til að byggja upp nýtt samstarf, styrkja þau sambönd sem þegar eru til staðar og miðla þekkingu innan ferðaþjónustunnar. Þá sé sérstaklega ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga sem austfirsk fyrirtæki sýna Mannamótum ár eftir ár. „Mannamót eru mikilvægur þáttur í markaðsstarfi ferðaþjónustunnar á landsvísu og styðja við áframhaldandi þróun og verðmætasköpun í greininni, ekki síst á landsbyggðinni,“ segir hún. „Fyrir Austurland eru Mannamót lykilvettvangur til að auka sýnileika, efla samstöðu og styrkja stöðu svæðisins sem heilsársáfangastaðar.“
Austurbrú mun fylgjast með viðburðinum og miðla stemningu og helstu tíðindum á samfélagsmiðlum.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn