Frumkvæðissjóður Sterks Stöðvarfjarðar hefur á undanförnum árum verið öflugur farvegur fyrir hugmyndir sem sprottið hafa upp úr samfélaginu sjálfu. Nú stendur yfir síðasta úthlutun sjóðsins og er opið fyrir umsóknir. Umsóknarfrestur rennur út 10. febrúar.
Frumkvæðissjóðurinn er hluti af verkefninu Brothættar byggðir, sem Stöðvarfjörður tók þátt í árið 2022 undir heitinu Sterkur Stöðvarfjörður. Verkefnið byggir á vinnu með íbúum og framtíðarsýn sem mótuð var á íbúaþingi í mars það ár, þar sem áhersla var lögð á að styrkja samfélagið, bæta lífsgæði og skapa forsendur fyrir fjölbreytta atvinnu- og samfélagsþróun.
Markmið sjóðsins er að gefa fólki tækifæri til að láta hugmyndir verða að veruleika, hvort sem þær snúa að atvinnuuppbyggingu, nýsköpun, menningu, þjónustu eða samfélagseflingu. Verkefni sem hljóta styrk þurfa að styðja við framtíðarsýn og markmið Sterks Stöðvarfjarðar en sjóðurinn er sérstaklega ætlaður hugmyndum á byrjunarstigi. Ólíkt mörgum öðrum styrktarsjóðum er ekki gerð krafa um mótframlag og mögulegt er að sækja um styrki til tækjakaupa sem getur skipt sköpum þegar verið er að koma nýrri starfsemi af stað.
„Frumkvæðissjóðurinn er kveikja,“ segir Valborg Ösp Warén, verkefnastjóri Sterks Stöðvarfjarðar. „Hann styður við hugmyndir og dregur úr fjárhagslegri áhættu fólks sem vill prófa nýjar leiðir, byggja upp þjónustu eða blása lífi í verkefni sem annars hefðu hugsanlega aldrei farið af stað.“
Frá árinu 2022 hafa alls 63 verkefni hlotið styrk úr sjóðnum og samtals hefur verið úthlutað um 37 milljónum króna. Verkefnin eru fjölbreytt en eiga það sameiginlegt að vera sprottin upp úr þörfum og hugmyndum íbúa á Stöðvarfirði. Þar má nefna uppbyggingu atvinnu- og menningarverkefna á borð við Brauðdaga deighús og Kaffibrennsluna, auk uppbyggingar göngustíga og útivistarsvæða, söguskilta um útgerðina á Stöðvarfirði, tónleikahalds, námskeiða, bæjarhátíða, fornleifasýninga og ýmissa annarra samfélagsverkefna. Alls hafa borist 75 umsóknir í sjóðinn og verkefnin hafa mörg hver skapað umtalsverð verðmæti og aukið lífsgæði í samfélaginu.


„Ein stærsta hindrunin sem fólk í litlum samfélögum mætir þegar það vill koma hugmynd í framkvæmd er aðgangur að fjármagni,“ segir Valborg, „þar hefur frumkvæðissjóðurinn reynst mikilvægt fyrsta skref. Í mörgum tilvikum hafa styrkirnir orðið til þess að verkefni ná fótfestu sem gerir umsækjendum kleift að sækja um í stærri sjóði eða í aðra fjármögnun.“
Hún hvetur fólk sem er með hugmynd í maganum til að láta ekki efasemdir halda sér aftur. „Verkefni þurfa ekki að vera stór í sniðum til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Oft þarf bara samtal til að skerpa hugmyndina og átta sig á næstu skrefum.“
Sem fyrr segir er opið er fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð Sterks Stöðvarfjarðar í síðasta sinn. Umsóknarfrestur er til og með 10. febrúar. Nánari upplýsingar, umsóknareyðublöð og leiðbeiningar má finna á vef Austurbrúar. Verkefnastjóri býður jafnframt upp á ráðgjöf og viðtalstíma fyrir umsækjendur.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn