Framtíðarsýn Austurlands var unnin af samráðshópi sóknaráætlunar og var horft til ársins 2030 sem er u.þ.b. gildistími tveggja nýrra sóknaráætlana. Niðurstaðan sýndi metnað, kraft og framsækni. Þátttakendur sömdu forsíðu dagblaðs fyrir einn dag í september árið 2030 sem lýsti því helsta sem um væri að vera í landshlutanum.
- Á Austurlandi fjölgar íbúum jafnt og þétt og ungt fólk flytur austur. Innflytjendur aðlagast samfélaginu vel, taka virkan þátt og fjölmenning blómstrar. Heilsufar Austfirðinga er almennt gott og heilbrigðisþjónustan er efld með nýrri tækni í fjarþjónustu sem eykur öryggi og búsetugæði. Tekjur á Austurlandi eru góðar og sömuleiðis hagur sveitarfélaganna.
- Á Austurlandi er kraftmikið íþróttalíf. Menningarþátttaka er mikil og listir skapa bæði tómstundatækifæri og starfsvettvang fyrir listamenn. Menningarmiðstöðvar eru öflugar og Sinfóníuhljómsveit Austurlands er áberandi í menningarlífinu.
- Mikill metnaður einkennir atvinnulíf á Austurlandi. Sérstaklega er sótt fram á sviði matvælaframleiðslu og matarauður Austurlands er þekktur sem fyrirmyndarhugmyndafræði. Ferðaþjónusta á svæðinu er gæðavara sem sækir fram undir merkjum Áfangastaðarins Austurlands. Ólíkar greinar styðja hver aðra og samvinna blómstrar.
- Á Austurlandi er stefnt að sjálfbærni á sem flestum sviðum allt frá samgöngumálum til matvælaframleiðslu og frá úrgangsmálum til nýsköpunar. Aukin umhverfisvitund og metnaður einkennir stefnu Austurlands í málum er snúa að endurvinnslu, sorpeyðingu og úrgangsmálum almennt. Sjálfbærni og umhverfisvirðing einkennir matvælaframleiðslu á svæðinu.
- Háskólasetur opnar á Austurlandi. Þar fer fram fram öflugt nám, rannsóknir dafna og atvinnulífið á svæðinu fær dyggan stuðning m.a. fyrir tilstuðlan gervigreindar sem þróuð hefur verið af háskólasetrinu.
- Á Austurlandi tengja göng staði. Áhersla er lögð á vistvænan samgöngumáta m.a. almenningssamgöngur og uppbyggingu hjólreiðastíga. Innanlandsflug er öflugt og á allra færi að nýta sér það. Reglulegt beint flug til útlanda er um Egilsstaðaflugvöll.
Aðgerðir
Á samráðsvettvangi og út frá íbúafundum voru sett markmið fyrir landshlutann, mælanlegar aðgerðir til að meta framvindu eða þróun svo ná megi markmiðum framtíðarsýnar sem lýst er hér að ofan.
Aðgerðirnar eru í fjórum flokkum:
Gerum meira af því að:
- planta skógi
- nota almenningssamgöngur
- efla staðarstolt
- taka þátt í félags- og menningarstarfi
- styðja við nýsköpun
- efla listir sem fulla atvinnu
Drögum úr:
- sóun
- vinnu
- flækjustigi á öll sviðum
Byrjum að:
- efla vistvænar samgöngur á Austurlandi
- minnka kolefnissporið
- fullvinna matvæli sem verða til á svæðinu
- efla tengsl og hvetja innflytjendur til
- samfélagsþátttöku
- líta á náttúru svæðisins sem verðmæta auðlind
Hættum að:
- stunda óþarfa neyslu
- tala svæðið niður
- rífast innbyrðis