Aðalheiður Borgþórsdóttir frá Seyðisfirði hlaut menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) sem tilkynnt var um á haustþingi sambandsins sem haldið var í fjarfundi í dag. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar.
Aðalheiður Borgþórsdóttir frá Seyðisfirði hlaut menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) sem tilkynnt var um á haustþingi sambandsins sem haldið var í fjarfundi í dag. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar.
Haustfundur SSA fór fram við sérstakar aðstæður í dag en vegna ástandsins í samfélaginu fór hann fram í fjarfundi. Að venju voru veitt menningarverðlaun SSA og hlaut þau að þessu sinni Aðalheiður Borgþórsdóttir, menningarfrömuður á Seyðisfirði.
Valkyrja af bestu gerð
Aðalheiður hefur komið víða við í menningarlífinu á Austurlandi og hefur verið virkur þátttakandi þess frá unglingsárum en hún er fædd árið 1958 í Vestmannaeyjum og flutti til Seyðisfjarðar á þrettánda ári.
Í rökstuðningi segir m.a.:
„Aðalheiður byrjaði ung að spila tónlist og halda „rokkótek“ ásamt félögum sínum í Lólu á Seyðisfirði. Þau komu víða við og unnu meðal annars hljómsveitakeppni Stuðmanna í Atlavík 1982. Menningin er Öllu, eins og hún er kölluð, í blóð borin og því var það henni mjög eðlislægt að taka við, móta og sinna starfi ferða- og menningarmálafulltrúa Seyðisfjarðar árin 1999-2014.“
Í því starfi tók hún meðal annars þátt í stofnun Skaftfells, Hótel Öldunnar og LungA listahátíðarinnar. Aðalheiður starfaði sem framkvæmdastjóri allra þessara verkefna í upphafi lífdaga þeirra en lengst af var hún framkvæmdastjóri LungA eða í sautján ár.
Aðalheiður hefur hefur skipulagt fjölda listsýninga, tónleika og aðra menningarviðburði, skapað fjölmörg störf „og fengið fleiri þúsund gesti til Seyðisfjarðar til að upplifa og njóta þeirrar menningar sem hún hefur nostrað svo fagmannlega við. Auk þess hefur hún aflað styrkja upp á mörg hundruð milljónir til ýmissa verkefna á Seyðisfirði,“ eins og segir orðrétt í tilnefningunni. Þar segir ennfremur:
„Aðalheiður á einn stærstan þátt í að koma Seyðisfirði á kortið sem ferðamannamekka Austurlands, en verkefnið hennar „Aldamótabærinn Seyðisfjörður“ markaði stefnu bæjarins hvað varðar gömlu húsin og má segja að það hafi verið upphafið að markaðssetningu Seyðisfjarðar til ferðamanna. Hún hefur unnið ötult starf í markaðssetningu staðarins allar götur síðan og ekki síst hafnarinnar sem í dag er fjórða stærsta skemmtiferðaskipahöfn landsins. Það er óhætt að segja að Aðalheiður hafi lagt meira til málaflokksins en flestir aðrir Austfirðingar og þó víðar væri leitað.
Hér er stikklað á stóru og vafalaust mörgu gleymt. En eitt er víst og það er að Aðalheiður Lóa Borgþórsdóttir er valkyrja af bestu gerð, ómetanleg og á skilið allar þær viðurkenningar sem til eru í þessum bransa.“
Ég er teymiskona í eðli mínu
Aðalheiður segist þakklát með viðurkenninguna en sjálf lítur hún á sig sem „menningarverkakonu“. Hún hafi þó alla tíð, í allri sinni vinnu, leitast eftir því að starfa í góðum hópi. Hún segir: „Það er aldrei ein manneskja sem hrindir öllu í verk og hef ég blessunarlega ávallt verið heppin með samstarfsfólk. Ég er teymiskona í eðli mínu og hef átt frábært samstarf við fólk m.a. Björtu, dóttur mína og ótal fleiri.“
Haustþing SSA óskar Aðalheiði Borgþórsdóttur hjartanlega til hamingju með verðlaunin.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn