Framtíðarsýn og stefna
Tilgangur svæðisskipulagsgerðar fyrir Austurland er að marka sameiginlega langtíma framtíðarsýn og meginstefnu sveitarfélaganna fjögurra í umhverfis- og byggðamálum, sem stuðlar að því að svæðið geti betur virkað sem landfræðileg, hagræn og félagsleg heild sem aftur styrkir byggðarþróun.
Mótun skipulagsstefnu
Svæðisskipulagið mun hnýta saman aðrar áætlanir á svæðis- og sveitarfélagastigi og verða einskonar regnhlíf fyrir þær. Sú framtíðarsýn og meginstefna sem mörkuð hefur verið í sóknaráætlun og áfangastaðaáætlun fyrir landshlutann verður uppfærð, samræmd og innlimuð í svæðisskipulagið. Á þeim grunni verður síðan sett fram skipulagsstefna sem styður við framtíðarsýnina og meginstefnuna. Þeirri stefnu verður fylgt eftir með nánari skipulagsstefnu og landnotkunarákvæðum í aðalskipulagi hvers sveitarfélags, sem og með skipulagsskilmálum í deiliskipulagi einstakra svæða.