Síðustu vikur hefur Austurbrú ásamt sveitarfélaginu Múlaþingi unnið að verkefnum sem tengjast aurskriðunum á Seyðisfirði fyrir jól. Helsta verkefni stofnunarinnar hefur verið greiningarvinna á áhrifum hamfaranna á atvinnulífið en ljóst er að það er gríðarlegt enda féllu skriðurnar á eitt helsta athafnasvæði bæjarins.
„Okkar hlutverk er að reyna átta okkur á því hvers konar stuðningsúrræði þarf að þróa fyrir Seyðfirðinga,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, en hún hefur leitt þessa vinnu fyrir hönd stofnunarinnar síðustu vikur. Austurbrú ákvað strax að veita þá hjálparhönd sem hægt var að veita. Ljóst sé að tjónið er gríðarlegt og fjölþætt fyrir samfélagið og atvinnulífið.
„Okkar fyrsta verkefni er að greina vinnumarkaðinn og atvinnulífið sem er fjölbreyttara á Seyðisfirði en víða annars staðar,“ segir Jóna Árný. „Við og fleiri, m.a. Byggðastofnun, höfum verið að safna saman grunnupplýsingum og í framhaldinu höfum við átt samtöl við rekstraraðila, sem eru margir á Seyðisfirði, til að ná utan um áhrif hamfaranna á fyrirtækin á staðnum. Skriðan fellur á viðkvæmt svæði, þar sem fjöldi fyrirtækja hefur sett sig niður, og við erum að vinna með þessum aðilum. Að auki aðstoðum við sveitarfélagið við að átta sig á mismunandi stöðu rekstraraðila á svæðinu,“ segir hún.
Jóna segir þessa vinnu mikilvæga því hún varpi skýru ljósi afleiðingar skriðanna. „Skriðan fellur á eitt megin atvinnusvæði staðarins og mörg fyrirtæki standa frammi fyrir allt öðrum veruleika en þau gerðu um miðjan desember.“
Áhrif hamfara eins og þeirra sem Seyðfirðingar upplifðu eru fjölþætt „Við erum að reyna hjálpast að við að koma „rútínu“ á í daglegu lífi fólks,“ segir hún. „Atvinna er stór þáttur í þeirri vinnu. Þegar hún hverfur er hið rútínubundna líf, sem okkur er öllum mikilvægt, í uppnámi. Það skiptir máli að hugsa um þessa hluti strax en ekki eftir nokkra mánuði þegar erfitt getur verið að greiða úr uppsöfnuðum vanda. Rekstraraðilarnir sjálfir þurfa að standa í brúnni í þessari vinnu og bregðast við frá degi til dags en stofnun eins okkar þarf þá að huga að því hvernig við getum stutt við bakið á þeim og sveitarfélaginu.“
Jóna segir að við séum á byrjunarreit: „Þetta eru fyrstu skrefin í þessari vinnu en sem betur fer búum við að reynslu annarra landshluta sem allir hafa þurft að ganga í gegnum hrikalegar náttúruhamfarir á allra síðustu árum hvort sem um ræðir snjóflóð, ofsaveður eða öskufall. Slík samvinna er ómetanleg í svona verkefnum og kunnum við öðrum landshlutasamtökum á landinu góðar þakkir.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn