Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Lærdómurinn mikilvægur

Draga þarf lærdóm af skriðunum á Seyðisfirði svo hægt sé að þróa og aðlaga viðbrögð nærsamfélagsins, t.a.m. sveitarstjórnar og ríkisvalds. Slíkur lærdómur mun nýtast á öllum stöðum landsins þar sem hætta á náttúruhamförum er fyrir hendi.

Mynd: Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson

Samfélagslegar afleiðingar náttúruhamfara eru margslungnar. Í rannsókninni var reynt að kortleggja þá atburðarás sem átti sér stað í beinu framhaldi af þeim, áhrif þeirra á íbúa voru metin m.t.t. heilsufars og lífsgæða og skoðaðir þeir þættir sem skipta máli þegar samfélag aðlagast nýjum veruleika eftir áfall og hvernig seiglan birtist svo í kjölfarið. Þátttakendur rannsóknarinnar sögðu samfélagið á Seyðisfirði einkennast af fjölbreyttni og samheldni en niðurstöður matslista gáfu til kynna að samfélagsvitund væri yfir meðallagi á Seyðisfirði. Þessi einkenni birtast meðal annars í samstöðu íbúa, opnun samfélagsmiðstöðvar, ýmis konar stuðningi og hreinsunarstarfi. Þá upplifðu Seyðfirðingar mikla samkennd og samhug frá utanaðkomandi aðilum og þeir viðbragðsaðilar sem rætt var við lýstu yfirvegun og samhug hjá íbúum.

Það var einnig spurt um atriði sem sneru að áfallastreitu og í ljós kom að tæplega helmingur (46% þátttakenda) telst með streitu yfir meðallagi sem gæti talist til skaðlegrar streitu. Þá treysta ekki allir íbúar sér inn á ákveðin svæði í bænum í kjölfar skriðanna. Spurt var sérstaklega um eignatjón í spurningalistanum en af þeim sem svöruðu sögðu um 7% heimili sitt hafa orðið fyrir tjóni en 22% að fasteign í þeirra eigu eða notkun hafi orðið fyrir tjóni. Þegar spurt var um úrlausn vegna tjóna töldu um 21% sig ekki hafa fengið úrlausn sinna mála.

Svo virðist vera sem lítið hafi verið um brottflutning fram að þessu þótt ekki sé útilokað að það kunni að breytast til lengri tíma litið.

Bið eftir hættumati hefur reynst mörgum íbúum erfið en hættumatið er undirstaða nauðsynlegra framkvæmda til að skapa aukinn stöðugleika og jafnvægi í samfélaginu. Skiptar skoðanir voru á rýmingum, sumir sögðust ekki hafa viljað rýma áður en stóra skriðan féll (þann 18. desember) en allir hafi séð eftir á að það var heppni að ekki fór verr og ekki nægilega rýmt þegar upp var staðið.

Í viðtölunum kom fram almenn ánægja með hreinsunarstörf og uppgræðslu. Fólki þótti vel að því staðið og var ánægt með hve hratt var hafist handa við hreinsun og uppgræðslu. Margir nefndu að miklu máli skipti fyrir íbúa að hafa ekki „opið sár“ í fjallinu. Hreinsun og uppgræðsla hefði þannig haft jákvæð sálræn áhrif á íbúa.