Alexandra Tómasdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri hjá Áfangastaðastofu Austurlands innan Austurbrúar. Hún hefur mikla reynslu á sviði markaðsmála en Alexandra starfaði m.a. áður sem markaðsstjóri Keilis. Hún á ættir að rekja austur á Norðfjörð og segir það dásamlega tilhugsun að geta farið aftur að skíða í austfirsku Ölpunum.
Alexandra mun vinna að verkefnum er snúa að framkvæmd áfangastaðaáætlunar fyrir Austurland en það er sameiginleg stefnuyfirlýsing um hvert og hvernig stefna eigi að uppbyggingu, þróun og markaðssetningu landshlutans, einkum í tengslum við ferðaþjónustu.
Hún hefur mikla reynslu á markaðsmálum en hún starfaði áður sem markaðsstjóri Keilis miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs. Þar á undan starfaði hún sem markaðsstjóri Private Travel Iceland sem sérhæfir sig í sérsniðnum lúxusferðum um Ísland.
Alexandra er með BS í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði frá Auburn University Montgomery og MS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.
Hún segist mjög spennt fyrir nýja starfinu hjá Austurbrú. „Hér hefur átt sér stað frábær vinna í uppbyggingu Austurlands sem áfangastaðar á síðustu árum en enn er mikið af ónýttum tækifærum,“ segir Alexandra.
„Starfið leggst gríðarlega vel í mig og er ég full tilhlökkunar að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum.“
Alexandra er alin upp á Norðfirði en flutti að heiman sextán ára gömul til að stunda nám. Hún á mann og þrjú börn en fjölskyldan hefur síðustu ár átt heima í Grindavík. Alexandra segist ætíð hafa verið hrifin af litlum og samheldnum samfélögum: „Þegar maður hefur upplifað alvöru frelsi í smábæjarsamfélagi, með náttúruna allt í kring, vill maður ekkert annað fyrir sjálfa sig og börnin,“ segir hún en fjölskyldan ætlar að búa á Egilsstöðum.
„Hér hefur samfélagið tekið gríðarlega vel á móti okkur, börnin geta sótt skóla og íþróttir, gangandi eða hjólandi. Þú þarft ekki nema að labba út um dyrnar heima hjá þér og þá ertu komin í náttúruparadís!“ segir Alexandra. „Maður eignast tvær klukkustundir aukalega í litlum samfélögum, þú ert fljót að sinna öllum erindum og færð margfalt fleiri tækifæri til að vera í núinu og hægja á þér.“
Hennar helstu áhugamál eru útivist, íþróttir, ferðalög og ævintýri en þess má geta að fjölskyldan er nýkomin heim úr fimm mánaða heimsreisu.
„Við erum því nokkuð mett af utanlandsferðum og getum farið að einbeita okkur að því að heimsækja náttúruperlurnar fyrir austan,“ segir hún og bætir við að lokum:
„Listinn af stöðum sem við ætlum að skoða og heimsækja fyrir austan er orðinn ansi langur. Það verður því nóg að gera allar helgar í vetur og dásamleg tilhugsun að geta farið að skíða aftur reglulega í austfirsku Ölpunum.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn