Mikill meirihluti þeirra sem nýtt hefur Loftbrú frá því að henni var komið á fót er ánægður með úrræðið en telur ástæðu til að hækka afsláttinn og fjölga ferðum sem séu innifaldar. Langflestir nýttu ferðirnar til þess að heimsækja ættingja og vini en margir nota Loftbrú einnig til að sækja heilbrigðisþjónustu, í tengslum við íþróttaiðkun og vegna skólasóknar. Þetta er meðal þess sem fram kom í rannsókn sem Austurbrú vann í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga á landsbyggðinni og Vegagerðina árið 2022. Um 76% þátttakenda höfðu nýtt sér Loftbrú, mestmegnis Íslendingar en niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að kynna þurfi úrræðið betur fyrir íbúum af erlendum uppruna.
Í júní 2020 samþykkti Alþingi úrræðið Loftbrú sem hluta af samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034 og opnað var fyrir notkun þess í september 2020. Einstaklingar sem geta nýtt Loftbrú hafa lögheimili í 96 póstnúmerum á Vestfjörðum, hluta af Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi, Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Afsláttarkjörin, sem nema 40% af heildarverði miða, eiga að nýtast íbúum svæðanna til að sækja sér miðlæga þjónustu og afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu og til að heimsækja ættingja og vini.
Byggðastofnun veitti Austurbrú 7 milljón króna styrk til að kanna notagildi og hlutverk Loftbrúar út frá reynslu notendahópsins. Skoðuð var samsetning hópsins, spurt um tilgang ferða, fjölda ferða auk þess sem þeir voru beðnir að leggja mat á kosti og annmarka Loftbrúar. Unnin var heildstæð úttekt á gögnum varðandi notendahópinn út frá gögnum Vegagerðarinnar sem heldur utan um framkvæmd Loftbrúar og könnun lögð fyrir í febrúar 2022 á öllum svæðum með rétt hafa á Loftbrú. Markmiðið var að setja fram innlegg í framtíðarsýn úrræðisins og framtíðarmótun. Var könnunin send út á íslensku, ensku og pólsku og dreift gegnum svæðismiðla og samfélagsmiðla samstarfsaðila. Gögnin voru greind eftir landshlutum og gefa góða mynd af notkunarmynstri og tilgangi ferða með Loftbrú. Svör bárust frá 1737 einstaklingum, flestum frá Austurlandi.
Loftbrúin er vel nýtt. Samkvæmt gögnum Vegagerðarinnar um Loftbrú var heildarfjöldi þeirra sem nýtti sér hana 57.059 árið 2021. Um helmingur flugfarþega var með lögheimili á Norðurlandi eystra eða á Austurlandi.
Góð nýting var meðal svarenda í könnun á Loftbrú en 76% þeirra höfðu nýtt úrræðið 2021 og langflestir þeirra nýttu ferðirnar til þess að heimsækja ættingja og vini. Einnig er töluvert um að Loftbrú sé notuð til að sækja heilbrigðisþjónustu sem ekki er til staðar í heimabyggð, hluti þeirra sækir endurgreiðslu til SÍ af þeim fargjöldum, en almennt eiga einstaklingar rétt á tveimur ferðum vegna slíkrar þjónustu frá Sjúkratryggingum árlega. Nokkuð er um að Loftbrú sé nýtt í tengslum við íþróttaiðkun og vegna skólasóknar, flestir til að fara í staðlotur eða á styttri námskeið.
Langflestir voru ánægðir með úrræðið og töldu það gagnlegt; ferðum þeirra hafði fjölgað í kjölfar þess og almennt áttu notendur auðvelt með að sækja afsláttarkóðann og bóka flug. Að þeirra mati er mikilvægt að halda Loftbrú áfram og þróa, til dæmis með því að fjölga flugleggjum og leyfa framsal á leggjum innan fjölskyldu. Fyrir fjölskyldur þar sem sumir fjölskyldumeðlimir ferðast meira en aðrir sögðu margir hægt að nýta leggina mun betur, sérstaklega þar sem þeir fyrnast eftir árið.
Íþróttafólk sem þarf að ferðast vegna keppni og æfinga vill einnig sjá fleiri leggi og þar væri mögulega samstarfsvettvangur við íþróttafélög á landsbyggðinni um sérstaka útfærslu á Loftbrú. Eins vilja námsmenn sem sækja nám til höfuðborgarinnar eiga kost á fleiri ferðum; bæði einstaklingar sem eru í staðnámi á höfuðborgarsvæðinu og vilja heimsækja fjölskyldu sem og fjarnemar á landsbyggðinni sem sækja staðlotur. Í þessu samhengi var nefnt að fyrir einstaklinga af landsbyggðinni með tímabundið lögheimili á höfuðborgarsvæðinu vegna háskólanáms, væri kostur að geta nýtt Loftbrú .
Þó að almennt gangi kaupferlið með Loftbrú tiltölulega snuðrulaust voru ákveðnir hnökrar nefndir svo sem varðandi tengiflug og afbókanir eða niðurfellingar á flugi. Þar sögðu svarendur erfitt og langdregið ferli að fá Loftbrúarlegginn endurgreiddan.
Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi sem flestum þótti sanngjarnt en töldu að helmingsafsláttur væri ákjósanlegastur. Notendur töldu að flugfargjöld hefðu hækkað og því mætti hækka afsláttinn. Fæstir eiga rétt á öðrum niðurgreiðslum svo sem í gegnum stéttarfélög og því munar mjög um Loftbrú.
Kannað var hvernig farþegar með Loftbrú ferðast til og frá flugvelli. Langflestir fara á einkabíl og aðeins lítill hluti notar almenningssamgöngur. Áhugavert var að hluti svarenda vissi ekki hvort almenningssamgöngur byðust til og frá flugvelli í þeirra heimabyggð.
Þó nokkuð var um að farþegar færu um aðra flugvelli en þá sem teljast á þeirra heimasvæði. Farþegar um Egilsstaðaflugvöll eru ekki aðeins með lögheimili á Austurlandi heldur einnig á Norðurlandi eystra, Suðurlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Sama gildir um Akureyrarflugvöll. Þetta skýrist að hluta af því að frá sumum þéttbýliskjörnum er styttra á flugvöll í næsta landshluta en á þann sem tilheyrir þeirra svæði.
Í könnuninni kom fram að þó Loftbrú sé vel nýtt og ánægja með úrræðið, þurfi að kynna það betur fyrir ákveðnum hópum, svo sem innflytjendum. Hér má nefna að mjög lítill hluti svarenda var af erlendum uppruna.
Samantekt á niðurstöðumÁstæða er til að vinna áfram að því að festa Loftbrú í sessi sem almenningssamgöngur af landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins. Hópurinn er stór sem nýtir Loftbrú og nauðsynlegt að nýta reynslu notenda og viðhorf til að efla og þróa enn frekar útfærslur á Loftbrú. Þannig nýtist hún sem sterk byggðaaðgerð til að jafna aðstöðumun þeirra sem búa annars staðar en á suðvesturhorninu. Ýmsir vankantar hafa verið lagfærðir frá því Loftbrú hófst eins og aðgengi barna með tvö lögheimili og varðandi bókunarkerfið. Áfram þarf að halda þeirri góðu þróunarvinnu og verður það best gert með því að hlusta eftir þörfum notendahópsins og kynna hana betur fyrir íbúum af erlendum uppruna.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn