Dagana 1.–5. desember fór fimm manna hópur frá Íslandi til Feneyja á Ítalíu til að taka þátt í árlegum verkefnafundi NATALIE. Þar komu saman vísindamenn víðs vegar að úr Evrópu til að fara yfir stöðu og framgang verkefnisins og deila reynslu milli rannsóknasvæða.
Verkefninu er ætlað að þróa náttúrumiðaðar lausnir sem auka eiga viðnámsþrótt svæða gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Verkefnið er til fimm ára og er styrkt af Horizon-áætlun Evrópusambandsins. Verkefnið sameinar yfir 40 samstarfsaðila frá 13 löndum. Fulltrúar Matís og Austurbrúar sátu fundinn fyrir hönd íslenska rannsóknasvæðisins á Austurlandi, þar sem verkefnið er framkvæmt í nánu samstarfi við sveitarfélög, stofnanir, atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila. Austurbrú gegnir lykilhlutverki í verkefninu sem tengiliður milli rannsókna og samfélags á Austurlandi. Hlutverk Austurbrúar felst meðal annars í tengslamiðlun, skipulagningu vinnustofa og samráði við sveitarfélög, stofnanir, atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila. Með því er tryggt að vinna verkefnisins taki mið af raunverulegum aðstæðum á svæðinu og að niðurstöður nýtist hér.
„Aðalfundur NATALIE-verkefnisins í Feneyjum var dýrmætur vettvangur til að stilla saman strengi, miðla þekkingu og reynslu milli rannsóknarsvæða og efla samstöðu í þessu umfangsmikla samstarfi,“ segir Anna Berg Samúelsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís og leiðtogi íslenska teymisins. Hún segir jafnframt að slíkir fundir skipti miklu máli til að fá yfirsýn yfir stöðu verkefnisins og halda áfram þróun og innleiðingu náttúrumiðaðra lausna í almannaþágu.“
Einn af hápunktum fundarins var vettvangsferð að ítalska tilvikssvæðinu í Feneyjum, þar sem þátttakendur fengu að sjá hvernig náttúrumiðaðar lausnir eru nýttar í sjálfbærri endurheimt og stjórnun vatnakerfa. Þar var meðal annars sýnt hvernig hægt er að hægja á vatnsrennsli, bæta vatnsbúskap og draga úr flóðahættu með aðgerðum sem vinna með náttúrulegum ferlum. Að sjá lausnir „í verki“ – og ræða bæði árangur og áskoranir – gaf dýrmæta innsýn sem nýtist í áframhaldandi vinnu á Íslandi.
Austurland er eitt af átta rannsóknarsvæðum verkefnisins og þátttakendur eru Matís, Austurbrú, Green Fish og University of Exeter. Á Austurlandi er unnið að því að styrkja strandstjórnun og viðnámsþrótt samfélaga gagnvart loftslagstengdum áskorunum, með sérstakri áherslu á vatnsgæði, t.a.m. að auka viðnám vegna hættu á þörungablómgun. Í nánu samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu hafa verið greindir helstu áhættuþættir og lagt mat á hvaða náttúrumiðuðu lausnir gætu hentað best. Þar ber helst að nefna manngert votlendi og samþætt fjölþrepa sjóeldi (IMTA), þar sem lífverur eins og þörungar og skeldýr geta bundið næringarefni og þannig dregið úr næringarefnaálagi í fjörðum.

Vöxtur þörunga ræðst af náttúrulegu samspili súrefnisaðstæðna, hitastigs, ljóss og lagskiptingar sjávar. Á Íslandi má hins vegar sjá að grunnálag næringarefna getur stafað af óhreinsuðu eða ófullnægjandi hreinsuðu fráveituvatni frá þéttbýli, og að aukinn vöxtur fiskeldis á síðustu árum hefur víða leitt til meira næringarefnaálags í fjörðum og strandvistkerfum. Hækkandi hitastig sjávar eykur síðan líkur á þörungablómgun, eykur tíðni þeirra og gerir þau varanlegri en áður í kaldara loftslagi.

Creatium lineatum í sýni úr Reyðarfirði frá 15. september 2021. Myndin er tekin í gegnum smásjá með 10×20 stækkun ( Kristín J. Valsdóttir).
Samhliða rannsóknarvinnu sem farið hefur fram á svæðinu hefur Green Fish þróað stafrænt vöktunarkerfi sem nýtir daglegar Sentinel-3-gervihnattamyndir og reiknar cyanobacteria-vísitölu til að greina merki um þörungablóma. Kerfið getur veitt ákveðna viðvörun 2–3 dögum fyrr en hefðbundnar vatnssýnatökur og skilar meðal annars hitakortum, mælaborðsupplýsingum og tilkynningum sem styðja við betri viðbúnað og upplýsta ákvarðanatöku á svæðinu.
Náttúrumiðaðar lausnir geta dregið úr þörungablómavanda með því að binda eða fjarlægja uppleyst næringarefni úr sjó áður en þau nýtast þörungum til vaxtar. Sérstaklega getur samþætt fjölþrepa fiskeldi (IMTA) nýst vel, því lífverur, eins og þörungar og/eða skeldýr, taka upp næringarefni úr vatninu og binda þau í lífmassa, sem dregur úr næringarefnaframboði til þörungablóma. Með reglulegri vöktun og góðri strandstjórnun getur þessi nálgun stutt við betri vatnsgæði og aukið viðnámsþrótt vistkerfa.
Hlekkur á frétt frá síðasta ársfundi
Anna Berg Samúelsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn