Nýjar leiðir
Það hefur verið áskorun að halda úti íslenskunámskeiðum á tímum heimsfaraldurs. Verkefnastjórar og kennarar í íslensku fyrir útlendinga hafa verið útsjónarsamir við leita leiða til að miðla upplýsingum í gegnum vefmiðla. Þegar létt hefur verið á samkomubönnum hefur tíminn verið nýttur vel t.d. með löngum laugardögum og útikennslu. Á nokkrum námskeiðum voru gerðar tilraunir með lokaverkefni sem voru af ýmsu tagi. Þar má nefna alþjóðlega jólamatseðla, viðtöl, teiknimyndasögur, kennslumyndbönd í föndurgerð og dansi og sitthvað fleira.
Sjá fréttÁframhaldandi þróun
Árið 2019 var farið af stað með hugmyndavinnu um hvernig hægt væri að halda úti námskeiðum í fámennari byggðarlögum með fjarkennslu og var þeirri vinnu framhaldið árið 2020. Ráðinn var starfsmaður til Austurbrúar sem vinnur að verkefninu og standa vonir til þess að hægt verði að hefja fjarnám haustið 2021. Sérstaklega er horft til námskeiða 3 og 4 en þar eru oft færri þátttakendur en í byrjendanámskeiðunum og því erfitt að ná í hópa í fámennari byggðarlögum.
Það er leikur að læra íslensku
Til að nálgast viðfangsefnið þannig að það nýtist sem flestum innflytjendum um allt Austurland, lá beinast við að reyna að nýta tæknina og gera gagnvirkt efni eða tölvuleik sem auðvelt er að uppfæra og aðlaga að mismunandi þörfum nemenda, fyrirtækja og stofnana sem vilja auka færni erlendra starfsmanna. Auk þess er hann hugsaður sem nokkurs konar undirnámskrá eða viðmiðunarrammi fyrir kennara í íslensku fyrir útlendinga. Unnið var að verkefninu á árinu og heldur sú vinna áfram á árinu 2021.