Þróun hringrásarhagkerfis
Íbúar Austurlands munu standa frammi fyrir mörgum áskorunum á komandi árum og áratugum sem m.a. snúa að sjálfbærri nýtingu auðlinda og þróun hringrásarhagkerfis. Þetta endurspeglast t.d. í Svæðisskipulagi Austurlands 2022-2044 (sjá til dæmis kafla 4.1. um framtíðarþróun atvinnulífs) sem sveitarfélög í landshlutanum og stofnanir eins og Austurbrú taka mið af í sinni stefnumótun, skipulagsgerð og starfsáætlunum. Það er þýðingarmikið fyrir samfélag og atvinnulíf á Austurlandi að áherslur hringrásarhagkerfisins komi fram sem víðast.
Fræðsla til almennings
Þessi mál varða okkur öll og við getum öll lagt okkar að mörkum til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda t.d. með endurnýtingu- og vinnslu, minni matarsóun, flokkun úrgangs og sjálfbærri nýtingu auðlinda í landshlutanum. Vorið 2022 sótti Austurbrú um styrk í Loftslagssjóð, í samstarfi við sveitarfélögin á Austurlandi, til að framleiða þrjú kynningarmyndbönd með það að markmiði að hvetja samfélagið og einstaklinga á Austurlandi til að vinna að því saman að auka vitund um loftslagsbreytingar, líta í eigin barm og taka upp loftslagsvænan lífsstíl. Styrkur fékkst til að vinna myndböndin og var gengið til samninga við listafólkið Rán Flygenring, Elínu Elísabetu Einarsdóttur og Sebastian Ziegler um gerð kynningarmyndbandanna. Þau voru tekin upp sumarið 2022 og sett á vef Austurbrúar í byrjun árs 2023. Þeim hefur verið dreift í alla skóla á Austurlandi, til opinberra stofnana, sveitarfélaga, annarra landshlutasamtaka og sem víðast og vonir standa til að þau fái gott áhorf og verði okkur öllum hvatning til að gera betur í þessum málum.
Hvað getum við gert sjálf?
Í fyrsta myndbandinu er fjallað almennt um hringrásarhagkerfið, í öðru myndbandinu um mat og matarsóun þar sem áherslan er lögð á að við lítum okkur nær þegar kemur að því að velja mat og einnig er hvatt til minni matarsóunar. Fjallað er um það hvernig sum matvæli eru flutt til landsins um langan veg, til móts við það hvernig við getum oft með mun auðveldari hætti nálgast matvæli sem framleidd eru nálægt okkur. Í þriðja myndbandinu er fjallað um ferðamáta og hvernig við getum oftar valið umhverfisvænni leiðir til að fara á milli staða, hvernig við getum sameinast í bíla, nýtt almenningssamgöngur betur og þannig minnkað útblástur. Í fjórða myndbandinu er fjallað um endurnýtingu og við hvött til að fara betur með hlutina sem við eigum, deila til annarra því sem við erum hætt að nota og reyna að gera frekar við, heldur en að kaupa alltaf nýtt og lengja þannig líftíma hluta.
Berum öll ábyrgð
Ljóst er að aukin fræðsla leggur þung lóð á vogarskálarnar þegar kemur að því að breyta hegðun. Myndböndin eru stutt og hnitmiðuð, en skilaboðin eru skýr; við getum öll litið í eigin barm og breytt hegðun og áttað okkur á því að við berum öll ábyrgð á því að vinna gegn loftslagsvánni. Það er von okkar hjá Austurbrú að myndböndin hljóti góða dreifingu og verði nýtt til vitundarvakningar um allt land.
Skoða myndbönd