Djúpivogur innflytjendur

Góð túlkun - góð samskipti

Í september byrjum við með einstaklega spennandi nám í samfélagstúlkun. Þetta er í fyrsta skipti sem Austurbrú býður upp á slíkt nám en það er hannað sérstaklega fyrir innflytjendur.

Skráðu þig!

Hverjar eru áherslurnar í náminu?

„Í námsleið fyrir samfélagstúlka er gert ráð fyrir að fólk hafi náð góðu valdi á íslensku og að minnsta kosti einu öðru tungumáli og geti túlkað á milli þeirra. Námið er hannað fyrir innflytjendur en ég hef líka kennt mörgum Íslendingum sem hafa lært önnur mál en íslensku og vilja starfa sem túlkar. Við erum nefnilega ekki að kenna tungumál heldur allt hitt sem hefur að gera með túlkun. Til dæmis hvernig fólk á að haga sér í túlkaaðstæðum, hvert er hlutverk túlksins og hvað er ekki á verksviði hans. Hvernig getur túlkur undirbúið verkefni, hvað á að gera til að samskipti gangi sem best, hvernig virkar þagnarskylda og margt fleira. Nemendur þurfa að taka frá tíma til að hlusta á upptökur með kennsluefni, vinna einstaklings- og hópverkefni og taka þátt í umræðum á netinu. Í lok námsins eru þeir komnir með ýmis verkfæri í hendurnar sem nýtast í túlkastarfinu.“

Fram skal tekið að námið er að mestu leyti fjarnám en síðan er skyldumæting í staðlotur og þar fara fram umræður og verklegar æfingar. Þá eru kennslustundir einu sinni í viku sem nemandi verður að mæta í og auk þess er gert ráð fyrir heimanámi.

En í hverju er mikilvægi námsins fólgið?

„Góð túlkun tryggir góð samskipti og ef hún er ófagleg eða einfaldlega röng geta hent dýrkeypt mistök sem valda vandræðum, misskilningi, óþarfa sársauka og þess vegna misskiptingu.“

Hún segir að nám í samfélagstúlkun geti opnað ýmsar dyr að skemmtilegri reynslu. Fólk sem hafi lært túlkun geti ráðið sig hjá túlkaþjónustum og farið í alls konar verkefni hingað og þangað. „Þess vegna má segja að vinnan henti fólki sem er opið, snöggt að hugsa, sækist í fjölbreytni í starfi en er samt rólegt og yfirvegað,“ segir Birna og heldur áfram: „Túlkamenntað fólk getur líka ráðið sig í störf þar sem reynir á tungumálakunnáttu og túlkun getur verið hluti af starfinu. Sem dæmi má taka starf skólaliða í skólum þar sem nemendur og foreldrar eru af erlendu bergi brotnir. Annað dæmi eru stórir vinnustaðir þar sem tryggja þarf góð samskipti milli fólks sem talar ólík tungumál. Túlkanámið er líka tilvalið fyrir fólk sem vinnur á slíkum vinnustöðum.

Hvaða dyr getur námið opnað m.t.t. til frekara náms?

„Á undan eða eftir þessu námi getur verið gott að bæta við sig formlegu námi í tungumálum, t.d. íslensku sem annað mál, ýmiss konar brúarnámi, t.d. skólaliðabrú, en einnig eru í boði á háskólastigi diplómanám í samfélagstúlkun og meistaranám í ráðstefnutúlkun við Háskóla Íslands.“