Við fáum reglulega spurningar um hvað Austurbrú gerir og hvert hlutverk hennar er. Hér svörum við algengustu spurningunum – stuttlega og skýrt – svo auðveldara sé að átta sig á því hvernig Austurbrú vinnur, fyrir hvern og umfram allt: Hvers vegna?
Hvað gerir Austurbrú?
Austurbrú vinnur að þróun Austurlands með því að styðja atvinnulíf, menntun, menningu og ýmis samfélagsverkefni. Austurbrú breytir stefnum og hugmyndum í raunveruleg verkefni í samstarfi og samvinnu við samfélagið.
Hvaða verkefnum sinnir Austurbrú?
Austurbrú sinnir fjölbreyttri verkefna- og þjónustuvinnu sem styður við framþróun Austurlands. Hún veitir atvinnu- og frumkvöðlaráðgjöf, styður við nýsköpun og byggðaþróun og aðstoðar fyrirtæki, sveitarfélög og íbúa við þróun fjölbreytilegra verkefna. Austurbrú annast Uppbyggingarsjóð Austurlands, sinnir menningarmálum, markaðsmálum fyrir landshlutann í heild og veitir þjónustu á sviði menntunar, símenntunar, náms- og starfsráðgjafar og raunfærnimats. Þá vinnur Austurbrú að rannsóknum og greiningum, heldur utan um svæðisskipulag og sóknaráætlun Austurlands og styður hagsmunagæslu sveitarfélaganna í samstarfi við Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA).
Fyrir hverja er Austurbrú?
Austurbrú vinnu fyrir sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir, frumkvöðla og alla þá sem vilja þróa hugmyndir, verkefni eða starfsemi í landshlutanum.
Get ég sem einstaklingur leitað til Austurbrúar?
Já. Þú getur leitað til Austurbrúar ef þú ert með hugmynd að verkefni, áhuga á námi eða símenntun, menningar- eða nýsköpunarverkefni og/eða spurningar um styrki eða ráðgjöf. Öllum erindum er svarað og ef Austurbrú getur ekki aðstoðað beint verður leitast við að beina þér í rétta átt.
Hvaða aðstoð fá fyrirtæki hjá Austurbrú?
Austurbrú veitir fjölbreytta atvinnu- og frumkvöðlaráðgjöf, meðal annars aðstoð við styrkumsóknir, fræðslu og hæfniþróun og þátttöku í þróunar- og byggðaverkefnum.
Hvernig tengjast Austurbrú og Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA)?
SSA mótar stefnu og sameiginlega afstöðu sveitarfélaganna og sinnir hagsmunagæslu fyrir landshlutann í heild. Austurbrú framkvæmir verkefni og veitir þjónustu á þessum grunni. Austurbrú vinnur með sveitarfélögum að þeirri framtíðarsýn sem fram kemur í svæðisskipulagi og sóknaráætlun, annast rannsóknir, greiningar og gagnaöflun og styður þannig við hlutverk og tilgang SSA. Stjórnarmenn SSA sitja jafnframt í stjórn Austurbrúar.
Hvernig er Austurbrú fjármögnuð?
Austurbrú er fjármögnuð með framlögum frá sveitarfélögum á Austurlandi og ráðuneytum, auk fjármagns sem kemur í gegnum samstarfs- og verkefnasamninga. Þá sækir Austurbrú sjálf um styrki til tiltekinna verkefna.
Hvaða máli skiptir Uppbyggingarsjóður Austurlands?
Uppbyggingarsjóður Austurlands veitir styrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar og nýsköpunar. Austurbrú sér um umsýslu sjóðsins, faglegt mat og eftirfylgni verkefna. Styrkur úr Uppbyggingarsjóði Austurlands getur skipt sköpum fyrir frumkvöðla á fyrstu stigum verkefnis. Hann veitir svigrúm til að prófa hugmyndir, þróa lausnir og taka næstu skref án þess að fjárhagsleg áhætta verði of mikil. Jafnframt felst í styrkveitingu fagleg viðurkenning á hugmyndinni – mikilvægt klapp á bakið sem getur styrkt sjálfstraust, trú á verkefnið og stöðu þess gagnvart öðrum fjármögnunaraðilum.
Get ég fengið hjálp við að sækja um í sjóði?
Já. Austurbrú veitir aðstoð við styrkumsóknir. Aðstoðin felst bæði í einstaklingsbundinni ráðgjöf og vinnustofum þar sem unnið er markvisst að uppbyggingu og mótun umsókna. Þá starfar hjá Austurbrú fólk með mikla reynslu og þekkingu á styrkja- og verkefnavinnu, sem getur hjálpað fólki að finna rétta sjóði, móta verkefni og auka þar með líkur á árangri.
Hvað er Austurbrú ekki?
Austurbrú er ekki stjórnsýslustofnun og fer ekki með opinbert vald. Hún tekur ekki stjórnvaldsákvarðanir, veitir ekki leyfi og setur ekki reglur fyrir íbúa eða fyrirtæki. Austurbrú er sameiginleg verkefna- og þjónustustofa sveitarfélaganna sem vinnur að framkvæmd, ráðgjöf og samhæfingu verkefna.
Hvers vegna ætti mér ekki bara að vera sama um Austurbrú?
Vegna þess að Austurbrú vinnur að verkefnum sem hafa bein áhrif á tækifæri, þjónustu og þróun á Austurlandi. Hún hjálpar hugmyndum að komast í farveg, styður við atvinnulíf, menningu og menntun og tryggir að fjármagn og samstarf nýtist svæðinu í heild. Jafnvel þótt þú eigir ekki bein samskipti við Austurbrú snerta verkefnin sem hún vinnur að daglegt líf, framtíðartækifæri og samfélagið sem þú býrð í.
Er þörf fyrir Austurbrú?
Já. Án Austurbrúar væri ýmis þróunarvinna á Austurlandi sundurlausari. Austurbrú sameinar þekkingu, fjármagn og framkvæmd og gerir sveitarfélögum, fyrirtækjum og íbúum kleift að vinna saman að verkefnum sem annars yrðu of stór, flókin eða tímafrek fyrir hvern aðila fyrir sig. Með samhæfingu, ráðgjöf og verkefnastjórn eykur Austurbrú slagkraft svæðisins og tryggir að tækifæri nýtist Austurlandi í heild, ekki bara einstökum stöðum eða aðilum.
Hvernig hef ég samband við Austurbrú?
Besta leiðin er að senda okkur skilaboð. Öllum erindum er svarað.