Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir, fulltrúi frá Áfangastaðastofu Austurlands, tók á dögunum þátt í kynningarviðburðum á vegum Íslandsstofu á Spáni og í Bretlandi. Áherslan var á að kynna Austurland sem fjölbreyttan og aðlaðandi áfangastað utan háannatíma.
Dagana 28.–30. október voru vinnustofur í Málaga, Valencia og Madríd þar sem Sigrún Jóhanna hitti fulltrúa frá um tuttugu ferðaskrifstofum. „Ferðaskrifstofurnar heilluðust algjörlega af náttúrunni, norðurljósunum og hreindýrunum. Stuðlagil og helstu fossar Austurlands vöktu einnig mikla athygli,“ segir hún.
Sigrún Jóhanna bendir á að þekking á Íslandi hafi verið meiri í Madríd en í hinum borgunum og að enska sé ekki alltaf sjálfgefið samskiptamál í suðausturhluta Spánar. „Það skipti miklu að geta kynnt svæðið á spænsku og útskýrt hvað gerir Austurland svona sérstakt,“ segir hún.
Markmiðið með ferðinni var að kynna Austurland og nálgast betur ört vaxandi markhóp spænskra ferðamanna sem leita í síauknum mæli til Íslands.
Á vinnustofunum var jafnframt kynnt ný greining Hopscotch Tourism á ferðavenjum Spánverja sem íhuga Íslandsferðir lengri en fimm daga. Þar kemur m.a. fram:
Niðurstöðurnar falla vel að áherslum Visit Austurlands um að kynna svæðið yfir jaðar- og vetrarmánuði og hvetja til lengri dvala.
Dagana 4.–6. nóvember tók Sigrún Jóhanna síðan þátt í World Travel Market í London þar sem hún stóð vaktina á bás Íslandsstofu ásamt fulltrúum annarra landshlutamarkaðsstofa. Hún átti fjölda samtala við erlendar og innlendar ferðaskrifstofur og aðra samstarfsaðila.
Norðurljósaefni Íslandsstofu vakti mikla athygli og hélt Sævar Helgi Bragason (Stjörnu Sævar) fræðsluerindi um norðurljósin annan dag sýningarinnar. Þá lagði atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðrikson, leið sína á sýninguna og átti þar samtöl við samstarfsaðila og gesti um tækifæri og þróun ferðamála. Sigrún Jóhanna segir að samskiptin og endurtekin viðtöl skipti sköpum fyrir þróun áfangastaðarins: „Að hitta samstarfsaðila og ferðaskrifstofur endurtekið styrkir tengslanetið og heldur Austurlandi sýnilegu. Það er lykilatriði að minna reglulega á hvað svæðið hefur upp á að bjóða og hversu öflugt starf ferðaþjónustuaðilar eru að vinna hér.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn