2,9% landsmanna á Austurlandi standa enn undir tæpum fjórðungi allra vöruútflutningstekna Íslands. Nýuppfærð efnahagsgreining Analytica framkvæmd fyrir Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) staðfestir áframhaldandi og stöðuga verðmætasköpun á Austurlandi. Greiningin sýnir jafnframt að hver Austfirðingur framleiðir að meðaltali tæplega tífalt meira útflutningsvirði en íbúar annarra landshluta.
„Skýrslan sýnir svart á hvítu að Austurland er eitt mikilvægasta útflutningssvæði landsins,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA. Hún bendir á að þrátt fyrir gríðarlega verðmætasköpun svæðisins hafi opinber innviðafjárfesting ekki fylgt eftir í þeim mæli sem þörf er á. „Það er einfaldlega ekki sjálfbært til lengdar að landshluti sem stendur undir tæpum fjórðungi vöruútflutnings sitji ítrekað eftir þegar kemur að uppbyggingu samgönguinnviða. Við erum að leggja tölurnar á borðið og skýrslan er þannig framlag okkar til ábyrgrar stefnumótunar stjórnvalda,“ segir hún.
Nýja skýrslan er framhald greiningar sem fyrst var unnin árið 2023 og tekur nú til áranna 2022 til 2024. Greiningin staðfestir fyrri niðurstöður og sýnir stöðugan styrk atvinnulífsins á Austurlandi:
• Tæpur fjórðungur vöruútflutnings: Virði útflutningsvara frá Austurlandi árin 2022–2024 nam um 229, 211 og 219 milljörðum króna sem jafngildir um 23% af heildarvöruútflutningi Íslands – þrátt fyrir að Austurland sé aðeins um 2,9% landsmanna.
• Útflutningur á mann tífalt meiri: Árið 2024 framleiddi hver Austfirðingur útflutningsvörur að verðmæti 19,6 milljóna króna að meðaltali. Sem er tæplega tífalt meira en útflutningsvöruvirði á mann í öðrum landshlutum.
• Sterkur sjávarútvegur þrátt fyrir loðnubrest: Hlutur Austurlands í útflutningi sjávarafurða hélst 21,0–21,4% á tímabilinu, þrátt fyrir tæplega 200 þúsund tonna samdrátt í löndun uppsjávarfisks árið 2024 vegna loðnubrests og minni síldar- og makrílveiða. Fjölbreytt rekstrarform og sveigjanleiki í aðfangaöflun hafa haldið hlut landshlutans stöðugum.
• Álframleiðsla og raforka burðarásar: Hlutdeild Fjarðaáls í útfluttu áli frá Íslandi fór úr 35,4% í 42,6% á árunum 2022–2024, á sama tíma og heildarverðmæti álútflutnings landsins lækkaði verulega. Niðurstöður Analytica sýna að að minnsta kosti fjórðungur tekna Landsvirkjunar síðustu þrjú ár megi rekja til raforkusölu til Alcoa á Austurlandi og um þriðjung tekna af raforkusölu til stórnotenda.
• Ferðaþjónusta skilar tugum milljarða: Áætluð heildarneysla ferðamanna á Austurlandi var á bilinu 37,8–42,4 milljarðar króna á tímabilinu 2022-2024. Þrátt fyrir samdrátt í gistinóttum síðustu tvö ár sýna talningar á vinsælum áfangastöðum, eins og Hengifossi, Stuðlagili og Hafnarhólma, áframhaldandi fjölgun gesta, sem bendir til þess að áætluð gjaldeyrisöflun ferðaþjónustu á Austurlandi sé varfærin.
Skýrslan undirstrikar að atvinnulífið á Austurlandi er framleiðslu- og útflutningsdrifið hagkerfi sem skilar miklum tekjum til íslensks samfélags og býr yfir fjölmörgum vaxtartækifærum – í sjávarútvegi, orkuiðnaði, ferðaþjónustu og tengdum greinum. Til að nýta þessi tækifæri til fulls þarf hins vegar að ráðast í öfluga og samræmda uppbyggingu innviða.
Niðurstöðurnar styðja þannig ályktanir haustþings SSA þar sem lögð er áhersla á hraðari uppbyggingu samgangna, orku- og fjarskiptainnviða og sanngjarnari tekjuskiptingu af nýtingu náttúruauðlinda. Skýrslan er hugsuð sem beint innlegg í þá umræðu og til grundvallar ákvörðunum um opinbera fjárfestingu á næstu árum.
„Við erum ekki að biðja um styrki – við erum að benda á augljós fjárfestingartækifæri,“ segir Berglind Harpa. „Þegar landshluti skilar um fjórðungi vöruútflutnings og verulegum hluta gjaldeyristekna er eðlilegt að innviðafjárfesting og þjónusta hins opinbera haldist í takt við þá verðmætasköpun. Niðurstaðan er í raun einföld: Það borgar sig að fjárfesta í Austurlandi.“
Skýrslan Efnahagsumsvif Austurlands 2025 var unnin af ráðgjafafyrirtækinu Analytica fyrir Samband sveitarfélaga á Austurlandi. Þetta er önnur efnahagsgreiningin sem framkvæmd er af sama ráðgjafafyrirtæki fyrir landshlutann og byggir hún á gögnum frá Hagstofu Íslands, ársreikningum fyrirtækja ásamt frekari útreikningum og greiningu Analytica.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn