Hallormsstaður

Fimm ferðaleiðir

Áherslan í markaðsetningunni er á fimm ferðaleiðir sem spanna allt í náttúru, menningu og sögu Austurlands.

„Við erum með stóran landshluta þar sem margir spennandi og áhugaverðir staðir eru fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda. Með þessu átaki er ætlunin að koma stöðum og kennileitum betur á kortið og einfalda ferðamönnum sem leið eiga um landshlutann að finna þá og upplifa,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir verkefnastjóri hjá Austurbrú um markaðsátakið.

Þá hefur Austurbrú opnað nýja og uppfærða heimasíðu, Visitausturland.is, sem koma mun ferðalöngum og heimamönnum á Austurlandi vel í sumar. Við hana er tengt appið Austurland sem veitir notendum ýmis konar vildarkjör og fjölbreyttar upplýsingar um það helsta sem landshlutinn Austurland hefur upp á að bjóða. Það veitir líka upplýsingar um fasteignir á sölu, laus störf, viðburði og fyrrnefndar ferðaleiðir á Austurlandi.

„Þetta átak hefur verið að þróast í samvinnu við sveitarfélög og fyrirtæki á Austurlandi og nú er komið að því að hleypa þessu af stokkunum,“ segir Jónína. Upplýsingum á nýju síðunni er þannig stillt upp að fólk getur gefið sér góðan tíma til að finna það sem það vill gera og skipuleggja þannig ferðir sínar frá upphafi til enda. „Við erum með fimm ferðaleiðir eða hringi sem fólk getur keyrt en út frá þeim má síðan finna mikinn fjölda af gönguleiðum,“ segir Jónína. „Auk þess er að finna fjölda af tjaldstæðum á þessum leiðum ef fólk vill prófa annað en Atlavík og önnur þekktari tjaldstæði.“

Náttúra, menning og saga

Áherslan í markaðsetningunni er, sem fyrr segir, á fimm ferðaleiðir sem spanna allt í náttúru, menningu og sögu Austurlands. Leiðirnar eru eftirfarandi:

Við ysta haf: Um er að ræða leið um nyrstu strandir Austanlands. Á þessari leið má m.a. upplifa fjölbreytt fuglalíf og þar er einnig mikið úrval gönguleiða með stórfenglegum útsýnisstöðum.

Austurströndin: Á þessari leið um vogskorna firði má m.a. finna áhugaverð söfn og skemmtilegar sundlaugar. Menningin og mannlífið setja mark sitt á leiðina.

Flakkað um firði: Þessi leið felur í sér akstur um einn hæsta fjallveg á Íslandi og í gegnum lengstu jarðgöngin á Austurlandi. Ef heppnin er með má koma auga á hvali á sundi.

Um öræfi og dali: Þessi leið liggur um Fljótsdalinn þar sem m.a. er að finna stærsta skóg landsins. Einnig er möguleiki á að stíga inn fyrir mörk Vatnsjökulsþjóðgarðs.

Fljótsdalshringurinn: Ein fjölfarnasta ferðaleið á Austurlandi, einkum meðal heimamanna. Á leiðinni eru margar tengingar við söguna og möguleiki á að skoða Hengifoss, einn hæsta foss Íslands.

Nánari upplýsingar


Jónína Brynjólfsdóttir

470 3807 // [email protected]