Í samstarfi við fjölbreyttan hóp listafólks verður haldin menningarveisla um allt Austurland þar sem nýir farvegir fyrir listir og menningu verða virkjaðir. Vonir standa til að upp spretti nýjar hugmyndir, nýtt samstarf, ný vinátta, nýir hæfileikar og nýtt listafólk. Eins og áður er hátíðin unnin í samstarfi við fjölda aðila, bæði nýja og gamla.

Þriðja árið í röð var ákveðið að leita til austfirsks listafólk varðandi hönnun á kynningarveggspjaldi fyrir hátíðina. Fyrsta árið voru það þau Dæja og Austin á Seyðisfirði sem hönnuðu veggspjöldin. Í fyrra hannaði Hildur Björk frá Djúpavogi veggspjöld þar sem minning Prins Póló var heiðruð og í ár er það listamaðurinn Marc Alexander frá Fáskrúðsfirði sem sá um hönnun veggspjaldsins en eldsumbrotin á landinu urðu honum að innblæstri eins og sjá má eða eins og hann segir sjálfur:

„My inspiration was of course the recent eruptions and how volcanoes, although hazardouz, are a source of new life themselves, creating fertile soil and new land masses.“

Fallegt er að sjá að upp úr gosholu listamannsins kemur litríkur regnbogi sem veitir okkur bjartsýni og von og undirstrikar fjölbreytt litróf lífsins.

Eins og fyrr hefst BRASið í byrjun september og stendur fram yfir miðjan október. Við hlökkum til að deila gleðinni með börnum og ungmennum á Austurlandi og hvetjum öll til þátttöku. Í ágúst verða viðburðir birtir á Facebook síðu BRAS auk þess sem þeir verða auglýstir á heimasíðum sveitarfélaga, í skólum, á íbúasíðum og víðar.

Nánari upplýsingar

Verkefnastjóri BRAS hjá Austurbrú


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

899 6913 // [email protected]