Á dögunum var tilkynnt um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2023 en þetta var fimmta og síðasta úthlutun sjóðsins í núverandi mynd. Austurbrú hlaut styrk fyrir BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, en hátíðin hefur raunar notið góðs af stuðningi sjóðsins frá upphafi og segir verkefnastjóri BRAS hjá Austurbrú styrkina afar þýðingarmikla. Nú er unnið að því að skipuleggja sjöttu BRAS-hátíðina sem fram fer í haust.
„Með þessum stuðningi getum við leitað til framúrskarandi listafólks til að koma og leggja sitt af mörkum til að gera hátíðina spennandi fyrir börn og unglinga á Austurlandi,“ segir Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, sem stýrir BRAS fyrir hönd Austurbrúar. „Við getum ráðið fólk úr fremstu röð til að taka þátt í þessu með okkur og ávinningurinn er mikill fyrir börn og unglinga á svæðinu. Já, og raunar fyrir allt samfélagið á Austurlandi því með þessu móti sköpum við samband á milli svæðisins og listamanna um land allt sem getur haft jákvæð, spennandi og stundum ófyrirsjáanleg áhrif á líf okkar og samfélög.“
Fjörutíu og eitt verkefni fengu styrk að þessu sinni úr Barnamenningarsjóði en lesa má nánar um úthlutunina á vef Rannís.
Undirbúningur BRAS hátíðarinnar er í fullum gangi en hún verður haldin í sjötta sinn í haust. Halldóra segir mikinn hug í stýrihópnum og ljóst að hátíðin mun halda áfram að vaxa og dafna. Þétt samband hefur orðið til á milli skólafólks, listamanna, menningarstjórnenda og almennings og metnaðurinn mikill þegar kemur að uppbyggingu barnamenningarstarfs á Austurlandi. Þema ársins 2023 er hringurinn og nafn hátíðarinnar „Hringavitleysa“. Hringurinn, sem form, hefur hvorki upphaf né endi, allt fer í hringi, við fæðumst lifum og deyjum. Tíska, listir, jörðin, sólin og tunglið, hringrásarhagkerfi og svo margt fleira – fer í hringi og/eða hafa lögun hringsins.
Þess má geta að BRAS árið 2023 mun heiðra minningu Svavars Péturs Eysteinssonar, listamanns, sem lést í fyrrahaust. Eins og flestir vita var Svavar um tíma búsettur á Austurlandi og tengist sögu hátíðarinnar með ýmsum hætti. Hann hannaði m.a. BRAS-lógóið og svo má líkast til fullyrða að einkunnarorð hátíðarinnar „Þora! Vera! Gera!“ séu mjög í hans anda og þeirrar listastarfsemi sem hann stóð fyrir. „Við munum gera eitthvað við hæfi en það er of snemmt að segja hvað það verður nákvæmlega,“ segir Halldóra.
Nú er unnið að því að fjármagna hátíðina og mun nýfenginn styrkur úr Barnamenningarsjóði koma sér vel í þeirri vinnu. Auk þess er unnið að því að fá nýja samstarfsaðila að borðinu meðfram því að efla enn frekar gæfuríkt samstarf á milli menningarmiðstöðvanna á Austurlandi, sveitarfélaga, skóla, stofnana, fyrirtækja, austfirsks listafólks og Listar fyrir alla sem er barnamenningarverkefni á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis. „Við hlökkum til haustsins,“ segir Halldóra. „BRAS skiptir máli og er liður í því að byggja upp gróskumikið menningar- og listalíf á Austurlandi sem er hluti af þeirri framtíðarsýn sem lögð er til grundvallar í Svæðisskipulagi Austurlands til ársins 2044.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn