Við sjáum það á fallegum litum laufblaðanna að haustið nálgast. Haustinu fylgja ýmsir fastir liðir, t.d. BRASið sem nú hefur innreið sína í sjötta sinn.
BRAS – menningarhátíða barna og ungmenna á Austurlandi hefur fest sig í sessi sem árviss haustviðburður og þykir mörgum hátíðin orðin jafn sjálfsögð og skólabyrjun, smölun og haustlitir. Hátíðin í ár ber nafnið „Hringavitleysa“ og þema ársins er hringurinn. Hann getur táknað allt milli himins og jarðar og það hentar mjög vel því verkefnin sem boðið verður uppá á BRASinu í ár verða alls konar, út um allt og fyrir öll börn og ungmenni á Austurlandi.
Við fengum forsmekkinn af BRASinu í síðustu viku en þá buðu þær stöllur Tess Rivarola, listakona frá Seyðisfirði og Arlene Tucker, listakona frá Finnlandi, upp á mjög skemmtilegar vinnustofur á Egilsstöðum og Djúpavogi. Þar bjuggu þátttakendur til draumaheima sína og síðan fór fram sýning með tónlistarfólki úr heimabyggð þar sem Tess og Arlene buðu áhorfendum að stíga inní þessa ólíku draumaheima sem skapaðir höfðu verið.
Í næstu viku fáum við til okkar listafólk frá Neamera Teatro á Spáni, en það eru hjónin Pablo og Diana sem ætla að bjóða völdum grunnskólum uppá vinnustofur í grímugerð. Auk þess bjóða þau upp á skemmtilegar leiksýningar helgina 10. og 11. september sem fram fara án orða og henta því öllum. Sýningarnar eru ókeypis.
Menningarmiðstöðvarnar þrjár bjóða uppá fjölbreytta viðburði í ár; sumir standa skólum til boða en aðrir eru opnir öllum. Minjasafn Austurlands, söfnin í Fjarðabyggð, bókasöfnin og austfirskir listamenn bjóða upp á opnar smiðjur auk þess sem List fyrir alla heimsækir alla grunnskóla með verkefnið Jazz hrekkur. Sveitarfélögin taka einnig virkan þátt í BRASinu með ýmsum hætti.
Sérstök áhersla verður lögð á það í ár að heiðra minningu Svavars Péturs Eysteinssonar/Prins Póló, en hann hannaði útlit og lógó BRAS og var þekktur fyrir að sjá húmorinn og gleðina í hinu hversdagslega. Boðið verður uppá tvo ólíka viðburði honum til heiðurs. Annar viðburðurinn verður í samstarfi við leikskólana á Austurlandi, en þeim verður boðið að æfa þrjú af lögunum hans og flytja þau síðan á afmælisdegi Svavars, þann 26. apríl á næsta ári. Síðari viðburðurinn verður brjálæðislegt stuð, en þá ætlum við að koma saman á diskóteki; dansa, syngja og fagna lífinu saman. Viðburðirnir eru unnir í samstarfi við Havarí ehf. og vini Svavars.
Við hvetjum forráðamenn til að fylgjast vel með auglýsingum fyrir komandi viðburði á BRAS.is, Facebook og Instagram. Auk þess munu skólarnir senda upplýsingar á forráðamenn í gegnum Mentor og hinar ýmsu stofnanir auglýsa á sínum miðlum.
Hlökkum til að BRASa með ykkur í sjötta sinn!
BRAS plakatið í ár er hannað af Hildi Björk Þorsteinsdóttur á Djúpavogi en hluta af því má sjá efst á síðunni.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn