Á málþingi í Menntaskólanum á Egilsstöðum þann 15. október kom saman fagfólk úr heilbrigðis-, mennta-, félags- og réttarkerfinu ásamt fulltrúum sveitarfélaga. Áherslan var á forvarnir, snemmtæka íhlutun og samhæfð viðbrögð við ofbeldi meðal og gegn börnum. Málþingið var hluti af dagskrá Farsældarviku sem fór fram dagana 10. til 17. október.
Dagskráin spannaði allt frá umfjöllun um stöðu barna á Austurlandi til nýrra skimunarferla, forvarnastefnu Múlaþings, hlutverks sýslumanna og réttarstöðu barna í ofbeldismálum.
Nýjustu niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar á Austurlandi voru kynntar og draga þær upp nokkuð jákvæða mynd. Börn sækja oftar félagsmiðstöðvar, finna til umhyggju kennara og hafa fullorðinn einstakling í skólanum sem þau geta leitað til. Þau lesa oftar fréttamiðla, stunda listnám og nota smokka við kynlíf. Áskoranir blasa þó líka við. Minni þekking á Barnasáttmálanum, minni ánægja með skólareynslu hjá sumum, síður gaman að bjóða vinum heim og erfiðara að ræða við foreldra.
Heilbrigðisráðuneytið kynnti vinnu að samræmdu landsferli sem felur í sér skipulagða skimun fyrir ofbeldi í 1., 4., 7. og 9. bekk (og síðar í framhaldsskóla), skýrari boðleiðir í úrvinnslu og samræmt verklag í heilbrigðisþjónustu þegar barn greinir frá ofbeldi. Markmiðið er snemmtæk íhlutun, aukin líðan, minni stigmögnun og gagnadrifnar ákvarðanir. Tölur undirstrika þörfina. Um 13% barna í 7. bekk segjast hafa orðið fyrir ofbeldi og 11% 10. bekkinga hafa annað hvort orðið vitni að líkamlegu heimilisofbeldi eða orðið fyrir því af hálfu fullorðinna. Á árinu 2023 bárust barnavernd yfir 3896 tilkynningar um ofbeldi gegn börnum eða um 26% allra tilkynninga. Í kortlagningu nágrannaríkja kemur fram að Finnland hafi innleitt formlega skimun en víða sé hlutverk skólaheilsu og skólahjúkrunar í greiningu lykilatriði. Verkfæri og spurningalistar norrænna landa geta nýst við innleiðingu hér á landi.
Forvarnaráætlun Múlaþings var kynnt en hún byggir á heildrænni sýn sem nær yfir ofbeldi, kynheilbrigði, heilsueflingu, félagsfærni, jafnrétti og stafrænt umhverfi. Lögð er áhersla á reglulega fræðslu, þjálfun starfsfólks, náið samstarf við lögreglu og barnavernd og markvissar aðgerðir í netheimum, svo sem netöryggi, ábyrga samfélagsmiðlanotkun og gagnrýna hugsun. Áætlunin er studd af sérhæfðum teymum sem funda reglulega og bregðast hratt við þegar þörf krefur.
Sýslumenn greindu frá því hvernig þeir leiðbeina og leysa ágreining foreldra um forsjá, lögheimili, umgengni og meðlag með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi. Sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf eru meginverkfæri. Náist sátt er hún staðfest og fær lagagildi en ella er úrskurðað eða vísað til dómstóla. Í ofbeldismálum er unnið í nánu samráði við barnavernd og beitt áhættumati.
Erindi aðstoðarsaksóknara fjallaði um réttarvernd barna, m.a. skýrslutökur í Barnahúsi, réttargæslumenn í kynferðisbrotamálum og sérreglur við úrlausn mála sakhæfra og ósakhæfra barna. Áhersla er á að skapa aðstæður þar sem barnið þarf ekki að endurtaka frásögn sína og að allar ákvarðanir taki mið af því sem því er fyrir bestu.
Barna- og fjölskyldustofa (BOFS) kynnti áframhaldandi stuðning við innleiðingu farsældar og verklag sem styrkir samvinnu fagfólks. Einnig var kynnt SES – Samvinna eftir skilnað, stafrænt og gagnreynt úrræði sem miðar að því að draga úr álagi og streitu í kjölfar sambandslita. Fyrri niðurstöður benda til verulegrar fækkunar veikindadaga meðal foreldra og mælanlegrar lækkunar á streitu og þunglyndi. Efnið er stigskipt fyrir börn eftir aldri og styður valdeflingu foreldra og samvinnu um velferð barnsins.
Nína Hrönn Gunnarsdóttir, verkefnastjóri farsældarráðs, segist ánægð með málþingið:
„Næstu skref felast í að byggja áframhald vinnu á auknum gögnum, samræmdu verklagi, skýrari boðleiðum og samstilltri teymisvinnu yfir kerfi. Austurland er sterkt á mörgum sviðum en áfram er ákall um markvissar umbætur.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn