Hver er ávinningurinn fyrir fólk að fara í þetta nám?

„Félagsliði er viðurkennt starfsheiti með virkt fagfélag og námið er viðurkennt til hækkunar launa í kjarasamningum. Félagsliðanám er á þriðja hæfniþrepi sem þýðir að auk þess að veita starfsréttindi og launahækkun opnar námið dyr að háskólanámi. Fyrir utan það er nám í fagi sem þú hefur reynslu og áhuga á afskaplega gefandi. Námið dýpkar þekkingu þína og þú getur sinnt starfinu af meiri fagmennsku. Það gefur því aukinn tilgang og þú nýtur þín enn betur í vinnunni.“

Raunfærnimat er hluti af náminu. Hvað þýðir það fyrir nemendur?

„Nemendur í félagsliðagátt skrá sig líka í raunfærnimat þar sem þeir fá reynslu sína úr starfi metna til eininga á félagsliðabraut. Þannig stytta nemendur námið og hefja það þar sem þeir eru staddir í þekkingu í stað þess að þurfa að byrja á byrjuninni. Við hjá Austurbrú höldum utan um raunfærnimatið og þátttakendur þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur þótt þeir hafi ekki lokið raunfærnimati þegar námið hefst. Í því er gert ráð fyrir að lágmarki þriggja ára starfsreynslu en ef sú reynsla er ekki til staðar þegar viðkomandi hefur nám getur hann tekið raunfærnimatið að náminu loknu svo dæmi sé tekið. Það sem við kennum eru svo fög sem ekki eru í raunfærnimatinu.“

Kennt verður í gegnum kennsluhugbúnaðinn LearnCove. Geturðu sagt okkur aðeins frá honum?

„LearnCove er kennslukerfi þar sem nemendur hafa aðgang að öllum námsgögnum, glærum, myndböndum, verkefnum og lesefni. Nemendum verður kennt á þetta kennslukerfi í upphafi náms en það er einfalt í notkun. Þar sem við vitum að nemendur okkar verða flestir í vinnu með námi – og einhverjir auk þess í vaktavinnu – verður skipulag námsins þannig að nemendur stýra því að stórum hluta sjálfir. Það er ekki tímasókn fyrir utan fyrstu helgina, en þá er staðlota, og námið byggir að mestu á verkefnum. En það fara líka fram umræður í náminu þar sem nemendur spjalla saman og ræða námstengd málefni. “

Fyrir hvers konar fólk er þetta nám?

„Námið er fyrir einstaklinga sem hafa reynslu og ánægju af að vinna með fólki. Félagsliðar vinna mjög mikilvægt starf í okkar samfélagi. Þeir vinna við að aðstoða einstaklinga sem þurfa á sérhæfðri aðstoð að halda. Hópurinn sem félagsliðar vinna með eru einstaklingar með fötlun, geðraskanir, aldraðir, langveikir og aðrir sem þurfa aðstoð til lengri eða skemmri tíma. Í náminu munu nemendur læra meira um mismunandi fatlanir og hvaða þjónustu fólk með sérþarfir hefur rétt á, ýmis viðfangsefni siðfræðinnar, grunnþætti atferlismótunar, kynja- og hinseginfræði og lyfjafræði svo eitthvað sé nefnt.“

Aðstoðið þið sérstaklega þá nemendur sem eru að fara í nám aftur eftir e.t.v. langt hlé?

„Já, námið er raunar sérstaklega hugsað fyrir þannig nemendur. Ekki er gerð krafa um að hafa lokið framhaldsskólaeiningum og við hjá Austurbrú og kennarar á okkar vegum erum meðvituð um að nemendur okkar eru ekki alltaf með fullt sjálfstraust þegar kemur að námi. Þannig hefjum við námið með námslotu þar sem farið verður í námstækni og svona „almennt pepp“ ásamt því að fá grunnfræðslu í upplýsingartækni. Nemendur geta svo leitað til náms- og starfsráðgjafa hvenær sem er á meðan náminu stendur og fengið aðstoð.“

Er eitthvað sem þú vilt segja við þá sem eru að skoða námið en ekki búnir að ákveða sig?

„Í starfi mínu sem náms- og starfsráðgjafi hef ég kynnst því hversu margir hafa brotna sjálfsmynd í námi. Fólk óttast að hefja nám og bíður árum, ef ekki áratugum, saman eftir rétta tækifærinu. Rétta tækifærið er núna því þú verður aldrei hundrað prósent tilbúin(n) að stíga út fyrir þægindarammann. Það þarf að stíga fyrsta skrefið þrátt fyrir efasemdirnar og gefa sjálfum sér nýtt tækifæri sem námsmaður. Það er fátt meira valdeflandi en það.“

Skráðu þig!

Nánari upplýsingar


Hrönn Grímsdóttir

470 3833 // [email protected]


Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir

470 3827 // [email protected]