Nýverið heimsóttu fulltrúar Fjölmenntar, símenntunarmiðstöðvar fyrir fatlað fólk, Austurbrú með það að markmiði að efla enn frekar hið góða samstarf sem myndast hefur á milli stofnananna á undanförnum árum. Fræðsluteymi Austurbrúar hefur, í samstarfi við Fjölmennt, boðið upp á fjölbreytt námskeið fyrir fatlað fólk bæði að vori og hausti, sem hafa hlotið afar jákvæð viðbrögð þátttakenda.
Í heimsókninni komu Oddbergur Eiríksson, forstöðumaður Fjölmenntar, og Helle Kristensen, ráðgjafi og kennari. Ásdís Helga Bjarnadóttir, yfirverkefnastjóri fræðslumála hjá Austurbrú, ásamt Úrsúlu Möndu Ármannsdóttur, verkefnastjóra sem sér um málefni Fjölmenntar hjá Austurbrú, tóku á móti gestunum og fræddu þau um starfsemina. Einnig var farið yfir þjónustu og aðstöðu á starfsstöðvum Austurbrúar á Egilsstöðum, Reyðarfirði og í Neskaupstað.
Gestirnir heimsóttu einnig tvö lykilsvæði í þjónustu við fatlað fólk – Stólpa á Egilsstöðum og Bakkabakka í Neskaupstað – þar sem forstöðumenn tóku á móti hópnum og kynntu starfsemi sína. Þar var einnig farið yfir námsleiðina Færni til framtíðar, sem boðið var upp á síðasta haust og naut mikilla vinsælda.
Hópurinn fundaði í Múlanum þar sem gafst tækifæri til að fara yfir samstarfið til þessa, dregin fram reynsla síðustu ára og rætt um framtíðartækifæri. Sérstök áhersla var lögð á nýja aðstöðu þjónustuþega á Reyðarfirði og fyrirhugaðan flutning einstaklinga þangað frá Neskaupstað – breyting sem gæti haft áhrif á fyrirkomulag námskeiða. Þrátt fyrir þær áskoranir sem slík breyting felur í sér eru þar einnig spennandi tækifæri sem gætu leitt til frekari nýsköpunar í fræðslustarfi.
Fjölmennt starfar á landsvísu og hefur það markmið að veita aðgengilegt, einstaklingsmiðað og fjölbreytt nám fyrir fatlað fólk, með áherslu á sjálfstæði, virkni og þátttöku í samfélaginu. Í samstarfi við stofnanir eins og Austurbrú er hægt að móta fræðslu sem tekur mið af aðstæðum og þörfum hvers svæðis, sem er lykilatriði ef við viljum bjóða upp á jöfn tækifæri fyrir alla.
Úrsúla Manda Ármannsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn