Mánudaginn 14. október fór fram samráðsfundur vegna verkefnisins ,,Öruggara Austurland“ á Reyðarfirði. Verkefnið hefur þa markmið að vinna sameiginlega gegn ofbeldi og öðrum afbrotum með markmiðum og aðgerðum sem byggðar eru á svæðisbundnum aðstæðum á Austurlandi. Austurbrú tekur þátt í að skipuleggja verkefnið.
Samráðsvettvangur „Öruggara Austurland“ hélt sinn þriðja fund á mánudaginn og var hann sá fjölmennasti hingað til. Verkefnið Öruggara Austurland var komið á laggirnar fyrir rúmu ári síðan, með það að markmiði að sameina fjölbreyttan hóp aðila í baráttunni gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á svæðinu. Meðal þátttakenda eru öll sveitarfélögin á Austurlandi, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Verkmenntaskóli Austurlands, Austurlandsprófastsdæmi, lögreglan og sýslumaður, auk Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands og Austurbrúar.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri setti fundinn. Fyrri hluti fundarins snerist um farsæld barna þar sem kynnt voru farsældarlögin, stigskipting þeirra og tölfræði. Fjallað var um innleiðingu lausnateyma í skólum, samstarf um stuðning við uppeldi og nám, og áskoranir sem tengjast innleiðingu þjónustu í þágu farsældar barna. Seinni hluti fundarins var helgaður þróun verklags vegna heimilisofbeldismála og opnaði Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands þann hluta. Fyrirlesarar frá Landspítalanum fjölluðu um nýtt verklag í heilbrigðisþjónustu við móttöku þolenda heimilisofbeldis og hvernig bæta mætti samstarf gegn ofbeldi innan fjölskyldna á Austurlandi. Þverfaglegt teymi helstu lykilaðila á Austurlandi ræddi síðan hvernig betur megi vinna saman gegn ofbeldi innan fjölskyldna á Austurlandi. Mikill áhugi var á þessum málum, og þátttakendur voru sammála um mikilvægi þeirra í þágu öruggara samfélags á Austurlandi. Fundinum lauk með umræðum um næstu skref í að efla úrræði og samstarf, með lokaorðum frá Margréti Maríu Sigurðardóttur lögreglustjóra á Austurlandi.
Fjallað var um fundinn í nýjasta þætti hlaðvarpsins okkar.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn