Austurbrú og Nordregio hafa gert með sér formlegt samkomulag með undirritun nýs verkefnasamnings. Lagður var grunnur að samstarfinu fyrr í vor þegar hópur starfsmanna heimsótti höfuðstöðvar Nordregio í Stokkhólmi.
Nordregio er rannsóknastofnun um byggðaþróun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og tilgangur heimsóknarinnar í vor var að leggja drög að frekara samstarfi stofnunarinnar við Austurbrú: „Við vildum vega og meta hvort Austurbrú gæti verið Nordregio innan handar í ákveðnum rannsóknarverkefnum,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar. Á fundinum í vor var rætt um mögulegt samstarf í verkefnum þar sem Austurbrú gæti hjálpað Nordregio með aðstoð við gagnaöflun, dreifingu upplýsinga og tengslamyndun innan Austurlands.
Nú hefur verið gengið frá formlegu samkomulagi og samstarf Austurbrúar og Nordregio orðið formlegt með undirritun nýs verkefnasamnings. „Okkar fyrsta verkefni fæst við gagnasöfnun í verkefni sem kallast Robust Regional Preparedness þar sem íslenski hluti rannsóknarinnar snýst um gagnaöflun á Austurlandi, nánar tiltekið á Seyðisfirði og í Múlaþingi. Nordregio mun þar nota okkar gögn um félagslega seiglu og við sækjum aukalega fyrir þau gögn um viðbúnað og viðbragðsáætlanir á svæðinu sem snerta náttúruvá.
„Þetta er afar ánægjulegt,“ segir Dagmar Ýr um verkefnasamninginn við Nordregio, „og gerir ekkert annað en að styrkja okkur sem öfluga rannsóknarstofnun á Austurlandi og framtíðarmöguleikarnir í þessu samstarfi eru margir og spennandi.“
Mynd til vinstri: Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar og Karen Refsgaard, stjórnandi hjá Nordregio.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn