Austurbrú hefur undanfarnar vikur fjallað um verkefnið Fræðslustjóri að láni, þar sem fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi fá markvissan stuðning við uppbyggingu fræðslustarfs. Nú er komið að Heilbrigðisstofnun Austurlands(HSA), sem hefur nýtt verkefnið til að efla fræðslu og endurmenntun starfsfólks.
Þegar HSA rýndi í niðurstöður mannauðsmælinga og könnunarinnar Stofnun ársins árið 2022 kom skýr vilji starfsfólks í ljós: aukin áhersla á fræðslu og endurmenntun. Í kjölfarið var sett á laggirnar fræðsluáætlun með það að markmiði að bjóða reglulega og almenna fræðslu sem styddi við faglega þróun og starfsánægju.
„Það er heilmikil vinna og töluvert umfang að halda utan um slíka áætlun svo vel sé staðið að henni,“ segir Magnfríður Ólöf Pétursdóttir, rekstrarstjóri HSA. Um svipað leyti hafði Austurbrú samband og kynnti verkefnið Fræðslustjóri að láni og í framhaldinu var ákveðið að hefja samstarf.
Í upphafi var gerð þarfagreining þar sem rýnt var í óskir og þarfir starfsfólks. Á grundvelli hennar var fræðsluáætlunin mótuð, með áherslu á það sem starfsfólk taldi mikilvægast hverju sinni. Magnfríður segir ferlið hafa gengið afar vel og að viðtökur starfsfólks hafi verið jákvæðar.
„Kannanir gefa til kynna að starfsánægja hafi aukist og við teljum að aukin tækifæri til fræðslu og endurmenntunar eigi þar hlut að máli,“ segir hún.
Samstarfið við Austurbrú hefur að sögn Magnfríðar verið lykilatriði í framkvæmdinni. „Samstarf við Austurbrú, og þá sérstaklega Hrönn og Bobbu, hefur verið frábært. Þær hafa haldið utan um okkur, ýtt við þegar þarf og gripið alla bolta án vandræða.“
Stærsti ávinningurinn hingað til er mikill tímasparnaður, auk aðgangs að tengslaneti og faglegum ráðleggingum. „Það fer mikill tími í að finna viðeigandi fyrirlesara, vera í samskiptum við þá og skipuleggja heimsóknir. Austurbrú setur upp skipulagið fyrir hverja önn í samstarfi við okkur, útbýr kynningarefni og framkvæmir ánægjukannanir eftir hverja fræðslu sem nýtast til áframhaldandi þróunar,“ segir Magnfríður.
Aðspurð hvort hún myndi mæla með slíku samstarfi við önnur fyrirtæki og stofnanir er svarið skýrt. „Já, ekki spurning. Ef stofnanir eða fyrirtæki hafa ekki starfsmann sem sinnir fræðslumálum sem aðalstarfi þá er þetta alltaf þess virði. Það er líka mjög hvetjandi að hægt er að sækja um styrki í fræðslusjóði stéttarfélaganna, bæði fyrir verkefnið Fræðslustjóri að láni og fyrir námskeið og fyrirlestra.“
Ef fyrirtækið þitt hefur áhuga á að fá fræðslustjóra að láni, greina fræðsluþarfir eða hefja markvissa uppbyggingu í sí- og endurmenntun, hvetur Austurbrú þig til að hafa samband. Ráðgjafar Austurbrúar veita fyrirtækjum leiðsögn í ferlinu, aðstoða við styrkumsóknir til starfsmenntasjóða og styðja við að byggja upp öfluga og markvissa fræðslustarfsemi á vinnustaðnum.
Hrönn Grímsdóttir
Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn