Austurbrú er aðili að tveimur Evrópuverkefnum í Horizon Europe áætluninni og snúa þau bæði að náttúruvá með Seyðisfjörð sem tilraunastað (testbed/demo site). Verkefnin hafa verið í gangi í tæpt ár núna og eru 3-4 ár eftir af þeim.
Ársfundur í öðru verkefninu, MEDiate, var haldinn í Essex í Englandi fyrr í þessum mánuði og komu þar saman allir 14 aðilar verkefnisins og þau fjögur tilraunasvæði sem taka þátt; Nice í Frakklandi, Essex í Bretlandi, Osló í Noregi og Seyðisfjörður á Íslandi.
Tilgangur verkefnisins og markmið er að þróa aðferðir eða líkan sem getur stutt við betri ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstiginu þegar kemur að náttúruvá eða hamförum. Starfsfólk Múlaþings hefur tekið virkan þátt í verkefninu og góð vinna hefur farið fram í íslenska hópnum sem í eru auk Austurbrúar, Háskóli Íslands og Veðurstofan.
Erna Rakel Baldvinsdóttir, verkefnastjóri rannsókna og greiningateymis Austurbrúar, sat fundinn og kynnti það sem snýr að Seyðisfirði, þeirri vá sem þar er til staðar, mögulegum afleiðingum hennar og þær áherslur sem sveitarfélagið vill leggja áherslu á þegar kemur að mótvægisaðgerðum fyrir Seyðisfjörð.
Næstu skref í verkefninu er frekari vinna með sveitarfélaginu og samstarfsaðilum þar sem betri kortlagning verður gerð á bæði snjóflóða og skriðuhættu og þeim aðgerðum sem hægt er að grípa til og snerta ákvörðunartöku sveitarstjórnarfólks þegar kemur að yfirvofandi vá eða ef hamfarir verða.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn