Samstarfssamningur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Austurbrúar um undirbúning stofnunar háskólaútibús og kennslu á háskólastigi á Austurlandi var undirritaður á Reyðarfirði um helgina af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og Einari Má Sigurðarsyni, formanni stjórnar Austurbrúar. Markmið samningsins er að tryggja áframhaldandi uppbyggingu þekkingarsamfélags á Austurlandi.
Á laugardaginn var undirritaður samningur milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Austurbrúar um kennslu á háskólastigi á Austurlandi. Samningurinn kveður á um áframhaldandi undirbúning að stofnun háskólaútibús og kennslu á háskólastigi á Austurlandi. Ráðgert að fyrsta skrefið í þá veru verði frumgreinadeild sem taki til starfa haustið 2021 og ári síðar er stefnt að því að hefja kennslu á Austurlandi í hagnýtri iðnaðartæknifræði til B.Sc. gráðu. Þriggja og hálfs árs nám til alls 210 ECTS eininga. Sem stendur er ekki boðið upp á tæknifræðinám utan höfuðborgarsvæðisins.
Við skipulag háskólaútibúsins verður horft til þarfa og styrkleika atvinnulífs á Austurlandi og í framhaldi af kennslu í frumgreinadeild er fyrirhugað að boðið verði upp á grunnnám í hagnýtri iðnaðartæknifræði. Um samkomulagið segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra:
„Það eru sterkir grunnatvinnuvegir á Austurlandi í sjávarútvegi, áliðnaði og ýmsum verk- og tæknigreinum. Á þeim innviðum verður byggt í þessu verkefni sem vonir standa til að muni efla samfélög og atvinnulíf í fjórðungnum. Ég fagna samvinnu við sveitarfélögin á Austurlandi sem standa saman að í þessu verkefni.”
Tilgangur verkefnisins er áframhaldandi uppbygging þekkingarsamfélags á Austurlandi en til verkefnisins var stofnað fyrir rúmum tveimur árum að frumkvæði samstarfsaðila á Austurlandi á grundvelli framtíðarsýnar um að skapa virkt háskólasamfélag á Austurlandi með stofnun háskólaútibús með kennslu á háskólastigi.
Austurbrú hefur komið að þessari vinnu í umboði samstarfsaðila á Austurlandi en í verkefnastjórn hafa setið fulltrúar stærstu framleiðslufyrirtækja, verktaka- og þjónustufyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Austurlandi. Eftirleiðis munu fulltrúar ráðuneytisins og þeirra háskóla sem koma til með að taka þátt í verkefninu taka sæti í henni og ráðuneytið mun einnig leggja til verkefnastjóra til að þróa verkefnið áfram. Framundan eru viðfangsefni sem snúa að framkvæmd námsins sem mun kalla á mikið samstarf atvinnulífs, menntastofnana, sveitarfélaganna og stjórnvalda.
Einar Már Sigurðarson, formaður stjórnar Austurbrúar, segir það afar þýðingarmikið að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi skuldbundið sig verkefninu með þessum hætti. Takist vel til muni öflug háskólavirkni fjölga tækifærum til nýsköpunar, efla atvinnulíf og samfélag og gera Austurland að eftirsóttum búsetukosti fyrir ungt fólk.
Myndatexti: Einar Már og Lilja undirrita samkomulagið. Mynd: GG.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn