Haustmynd

Frumkvöðullinn

Viðurkenning þessi er veitt þeim aðilum sem sýna áræðni og hugmyndaauðgi við uppbyggingu á þjónustu fyrir ferðamenn og stuðla með verkum sínum að aukinni fjölbreytni í atvinnugreininni á Austurlandi. Með framtaki sínu og frumkvæði ryðja þeir brautina og eru öðrum sem vinna við ferðaþjónustu nauðsynleg hvatning til dáða.

Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, hjá Vök Baths, hlaut viðurkenninguna að þessu sinni. Hún hefur undanfarin þrjú ár verið mikill drifkraftur í austfirskri ferðaþjónustu. Aðalheiður hefur verið áberandi í umræðunni, staðið fyrir viðburðum og vinnustofum og stuðlað að vöruþróun meðal austfirskra ferðaþjónustufyrirtækja. Hún hefur lagt mikið upp úr samstarfi við ferðaþjónustufyrirtæki í landshlutanum og tekið virkan þátt í samstarfsverkefnum.

Kletturinn

Viðurkenning þessi er veitt þeim aðilum sem um árabil hafa staðið í framlínu ferðaþjónustu á Austurlandi og með ósérhlífni og eljusemi stuðlað að framgangi og vexti atvinnugreinarinnar. Þeir eru bjargið sem ferðaþjónustan byggir á og eru öðrum fyrirmynd í að klífa örðuga hjalla til að ná handfestu á framtíðinni.

Friðrik Árnason, hjá Hótel Breiðdalsvík og Travel East, hlaut Klettinn að þessu sinni. Friðrik hefur starfað í ferðaþjónustu í rúmlega þrjátíu ár. Undanfarin fjórtán ár hefur hann byggt upp öfluga ferðaþjónustu á Breiðdalsvík eða frá því að hann festi kaup á Hótel Bláfelli (nú Hótel Breiðdalsvík) árið 2009. Þá hefur Friðrik komið að uppbyggingu Kaupfjelagsins á Breiðdalsvík ásamt því að ráðast í endurbætur á gamla frystihúsinu í samstarfi við Byggðastofnun. Gamla frystihúsið hýsti lengi vel bílasafn en þjónar í dag hlutverks viðburða- og ráðstefnusals. Friðrik hefur haft sjálfbærni að leiðarljósi í öllum sínum rekstri og hlaut Hótel Breiðdalsvík hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu fyrir vel ígrundaða sjálfbærnistefnu.

Friðrik hefur verið ötull talsmaður Austurlands í gegnum árin og sótt fjölda ferðasýninga og vinnustofa innanlands sem og erlendis í þeim tilgangi að kynna landshlutann fyrir áhugasömum ferðaskrifstofum og lengja ferðamannatímabilið.

Austurbrú óskar Aðalheiði og Friðriki kærlega til hamingju með viðurkenninguna og við hlökkum til áframhaldandi vinnu með þeim báðum!

Nánari upplýsingar


Sigfinnur Björnsson

470 3812 // [email protected]