haustfundur atvinnuþróunarfélaga á Austurlandi

Það var Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, sem setti fundinn í Valaskjálf, Egilsstöðum, en svo tók við spennandi dagskrá fram eftir degi. Arnar Sigurðsson sagði frá vaxtarrýminu Austanátt sem hefur verið í gangi fyrir austan í haust, Brynjólfur Borgar Jónsson stofnandi og framkvæmdastjóri Datalab, hélt fyrirlestur um gervigreind og atvinnuþróun en hann komst að vísu ekki austur vegna veðurs. Það kom ekki að sök og hann tengdist fundinum í gegnum Teams. Erindi hans vakti verðskuldaða athygli og greinilegt að gervigreind mun reynast gagnleg í atvinnuþróunarverkefnum framtíðarinnar. Jákup Sörensen, framkvæmdastjóri NORA, kynnti starfsemina og hvatti aðila til að koma á samstarfi og sækja um styrki í NORA og svo hélt Sigurður Árnason hjá Byggðastofnun erindi þar sem fjallað var um byggðaáætlun og styrkjakerfið.

Farið var í heimsókn til fyrirtækisins Tandraberg á Eskifirði þar sem Einar B. Kristjánsson og Magnús Þorsteinsson tóku á móti hópnum og sögðu frá fyrirtækinu auk þess sem gestir fengu að skoða framleiðsluna. Um kvöldið kynnti Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Kaldvíkur, starfsemi fyrirtækisins og Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sagði frá og kynnti verkefnið um orkugarð á Reyðarfirði.

Seinni daginn var Vallanes heimsótt þar sem Eygló Björk Ólafsdóttir og Eymundur Magnússon tóku á móti hópnum og kynntu starfsemi Móður Jarðar og uppbyggingu fyrirtækisins á síðustu árum. Þá var farið í Hallormsstaðaskóla. Þar tók á móti hópnum skólameistarinn Bryndís Fiona Ford. Hún sagði frá starfi skólans og þeim breytingum sem framundan eru með samstarfi við Háskóla Íslands og námi á háskólastigi.

Í framhaldi var farið að Ytri-Víðivöllum og í heimsókn til Skógarafurða. Bjarki Jónsson, framkvæmdastjóri, tók á móti hópnum og sagði frá fyrirtækinu. Gestirnir fengu að skoða skógarafurðastöðina og fengu líka kynningu á nýrri vöru, svokölluðum ylkubbum.

Þá var hádegisverður á Fljótsdalsgrund og svo komið við í Végarði þar sem Helgi Gíslason, sveitarstjóri, og Skarphéðinn Smári Þórhallsson tóku á móti fólki og kynntu fyrirhugaðan byggðakjarna í Fljótsdal sem mun kallast Hamborg.

Í framhaldinu var nýtt þjónustuhús við Hengifoss skoðað og svo lauk ferðinni með innliti í Sláturhúsið – Menningarhús þar sem Ragnhildur Ásvaldsdóttir tók á móti og sagði frá menningarstarfsemi í sveitarfélaginu og á Austurlandi.