Fræðsluteymi Austurbrúar sótti Haustfund Símenntar – Samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á Íslandi, er fram fór dagana 19. og 20. september í Vestmannaeyjum. Ellefu miðstöðvar um land allt standa að samtökunum.
Áherslur fundarins vorum einkum um notkun starfænna miðla og um inngildingu innflytjenda í íslensk samfélag með tilliti til framhaldsfræðslunnar.
Hildur Betty Kristjánsdóttir og Fjóla María Lárusdóttir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) kynntu helstu niðurstöður verkefnisins ,,Raddir fólks með erlendan bakgrunn – inngilding í nám, starf og samfélag” sem FA og Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL) stýra í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið. Verkefnið er hluti af áætlun ráðuneytanna vegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023.
Nichole Leigh Mosty hélt erindi um hvernig fullorðinsfræðsla er lykill að inngildingu innflytjenda en hún er sérfræðingur á sviði málefna innflytjenda og inngildingar.
Hallur Jónasson og Sigurður Norðfjörð frá Sahara héldu erindi um stafræna miðla: Þróun og bestun í nútíma auglýsingaheimi.
Þá fóru fram tvær vinnustofur sem þátttakendur fundarins skiptu sér í:
1) Um þróunarverkefni tengd Evrópska tungumálarammanum sem SÍMEY, símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, hefur unnið í samstarfi við Studieskolen, Austurbrú og Mími. Fulltrúar SÍMEY vörpuðu ljósi á virði tungumálarammans og tækifæri sem felast í honum, einkum hvað varðar samræmingu, nýja nálgun í kennslu og bætta þjónustu við innflytjendur. Lagður var ákveðinn grunnur að samræmingu námslýsinga í nokkrum vinnuhópum.
2) Um markaðsmál – Fulltrúar frá MSS – Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sögðu frá verklagi hjá miðstöðinni hvað markaðsmál og fjallaði fulltrúi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða um Meta for business og hvernig miðstöðin nýtir sér það. Fleiri miðluðu af reynslu og ýmsar leiðir voru ræddar í umræðum.
Eftir formlega dagskrá var þegið boð bæjarstjórans Írisar Róbertsdóttur og haldið í Ráðhúsið þar sem farið var yfir helstu verkefni bæjarins.
Í framhaldi var fræðst um fyrirtækin The Brothers Brewery og Aldingróður – sprettur microgreens.
Fulltrúar Austurbrúar nýttu tímann eftir dagskrá hvors dags til að kynnast þeirri menningu í Vestmennaeyjum að fara í pysjuleiðangur.
Tvær pysjur náðust í bænum og fengu að taka flugið þegar þeim var sleppt snemma næsta morgun. Fræðsluteymi Austurbrúar er sammála um að þetta hafi verið ánægjulegur fundur og forréttindi að fá að kynnast Vestmannaeyjum betur.
Ásdís Helga Bjarnadóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn