Hjörleifur Guttormsson, rithöfundur og fyrrum ráðherra og þingmaður, hlaut menningarverðlaun SSA 2024 í gær. Tilkynnt var um þetta á haustþingi sambandsins sem haldið var á Hallormsstað í dag og í gær. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar.
Haustfundur SSA fór fram í dag og í gær á Hallormsstað. Að venju voru veitt menningarverðlaun SSA og hlaut þau að þessu sinn, sem fyrr segir, Hjörleifur Guttormsson sem um árabil hefur ritað bækur og greinar um austfirsk málefni af ýmsu tagi þótt umhverfismál hafi honum verið sérstaklega hugleikinn.
Fjölmörg rit um austfirsk málefni
Hjörleifur er Austfirðingur í húð og hár en hann fæddist á Hallormsstað árið 1935. Hann lauk prófi í líffræði frá háskólanum í Leipzig í Þýskalandi en kom heim að loknu námi og starfaði í Neskaupstað sem kennari áður en hann settist á þing árið 1978 sem þingmaður Austurlands.
Eftir Hjörleif liggja fjölmörg rit um austfirsk málefni og væri of langt mál að telja þær allar upp hér. En það má nefna níu árbækur Ferðafélags Íslands um Austurland en þegar langur listi yfir ritstörf Hjörleifs er skoðaður má sjá að hjarta hans slær fyrir menningu, sögu og náttúru Austurlands.
Hjörleifur hefur ekki slegið slöku við því í sumar kom út tveggja binda verk eftir hann er inniheldur sögu Sigurðar Gunnarssonar á Hallormsstað sem var sálusorgari, ferðagarpur, smiður og húsameistari, náttúrufræðingur, rithöfundur, þingmaður og læknir. Segja má að lýsingin á atorkumanninum Sigurði minni um margt á barnabarnabarn hans, Hjörleif sjálfan, sem hefur auk ritstarfa tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðu, náttúru og minjavernd um áratugaskeið og hvergi slegið af, eins og flestir landsmenn vita.
Í tilnefningunni sem okkur barst segir orðrétt:
„Með skrifum sínum um austfirsk málefni og náttúru hefur hann opnað augu fólk fyrir sérkennum landshlutans. Þannig hefur hann lagt sitt af mörkum til að fólk kynnist landssvæði og náttúru sem áður voru mörgum óþekkt.“
Álitlegar tilnefningar
Það var Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA, sem afhenti verðlaunin og sagði við það tilefni að tilnefningarnar sem bárust stjórninni hefðu margar hverjar verið álitlegar og vel rökstuddar en niðustaðan hefði orðið þessi eftir vandlega skoðun.
Haustþing SSA óskar Hjörleifi hjartanlega til hamingju með verðlaunin!
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn