Ef Seyðisfjörður gæti talað!

Komdu í Herðubreið 30. apríl og taktu þátt í opnu samtali um framtíð menningarlífsins á Seyðisfirði. Vinnustofan er liður í rannsókn sem gefur rými fyrir hugmyndir, vonir og ímyndunarafl íbúanna sjálfra.

Viðburður á Facebook

Dagskrá vinnustofunnar:

15:00 – 16:30 Kortlagning og mótun framtíðarsviðsmynda

16:30–18:00 Samantekt, samtal og drykkir

Vinnustofan fer að mestu leyti fram á ensku og er öllum opin. Þátttakendur geta tekið þátt í báðum hlutum eða þeim hluta sem hentar hverjum og einum.

Hvers vegna Seyðisfjörður?

„Ég hef alltaf haft einhvern óútskýranlegan áhuga á Seyðisfirði,“ segir Hlín. „Kanski er það í genunum – afi minn var að austan – en mér fannst líka spennandi að skoða stöðu menningarlífsins í dag í ljósi þeirra umbreytinga sem samfélagið hefur gengið í gegnum á síðustu árum.“

Hlín segir að Seyðisfjörður sé með öflugan grunn þegar kemur að menningu og listum en að mikilvægt sé að hlusta á íbúana sjálfa um hvert þeir vilja stefna:

„Við þurfum að hugsa: Hvernig getur menning verið burðarás samfélagsins áfram? Og hvernig getur hún tengst öðrum þáttum – nýsköpun, menntun, ferðaþjónustu, sjálfbærni – á skapandi og hagnýtan hátt?“

Framtíðin byrjar í samtalinu

Verkefnið „Hvert skal haldið?“ hófst síðasta haust með vettvangsrannsóknum og viðtölum við íbúa. Vinnustofan í Herðubreið er næsti liður og niðurstöðurnar verða síðan unnar áfram og kynntar síðar á árinu.

„Við viljum að þetta verði ekki bara tilviljanakennt samtal sem hverfur. Við viljum búa til farveg þar sem hugmyndir geta dafnað og orðið að einhverju – ekki endilega stórum hugmyndum, heldur raunverulegum.“

Hvort sem þú ert fastagestur á tónleikum, áhugamaður um sögu staðarins, íbúi á Seyðisfirði eða einfaldlega manneskja sem vill hafa áhrif þá eru öll velkomin á vinnustofuna.

Verkefnið „Hvert skal haldið?“ er styrkt af Austurbrú, Miðstöð menningarfræða á Seyðisfirði (MMF) og Hönnunarsjóði Íslands en það nýtir aðferðir hönnunar og framtíðarfræða til samfélagslegrar ímyndunar.

Nánari upplýsingar veitir Hlín Helga í síma 699 7733 // [email protected]