Á Byggðaráðstefnunni sem haldin var á Mývatni 3. nóvember kynntu Lilja Sif Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, og Arnheiður Rán Almarsdóttir, verkefnastjóri hjá SSNE, erindið „Innflytjendur og samfélagið – samvinna sem skiptir máli“ og þar var fjallað um hvernig innflytjendur hafa á undanförnum tveimur áratugum orðið einn af helstu drifkröftum samfélagslegra og efnahagslegra breytinga á Austurlandi.
Erindið byggði á gögnum úr Sjálfbærniverkefninu á Austurlandi, sem Austurbrú vinnur að, og systurverkefninu Gaumi á Norðurlandi eystra. Með hliðsjón af nýjustu tölum var sýnt fram á hvernig koma innflytjenda, brottflutningur íbúa og áhrif stóriðju hafa mótað samfélögin á báðum svæðunum.
Lilja og Arnheiður bentu á að innflytjendur hafi lagt til aukna færni og kraft í samfélagið en jafnframt að áskoranir tengdar aðlögun, tungumálakennslu og félagslegri þátttöku kalli á samstillt viðbrögð. Með markvissari nýtingu hæfni og þekkingar innflytjenda geti samfélagið notið ávinnings fjölbreytileikans í ríkari mæli.
„Samvinna, þátttaka og stuðningur eru lykilatriði ef við ætlum að nýta tækifærin sem felast í breyttri samfélagsmynd,“ sagði Lilja Sif Magnúsdóttir í erindinu.
Sjálfbærniverkefni Alcoa Fjarðaáls og Landsvirkjunar var komið á fót til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Vöktun hefur staðið yfir frá árinu 2007 og Austurbrú hefur haldið utan um verkefnið frá árinu 2013. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á sjalfbaerni.is
.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn