Austurbrú hefur í mörg ár staðið fyrir íslenskukennslu fyrir útlendinga um allt Austurland. Námið er órjúfanlegur hluti af starfsemi stofnunarinnar og hefur þróast í takt við þarfir nemenda og samfélagsins. Við ræddum við Úrsúlu Möndu Ármannsdóttur, verkefnastjóra íslenskunáms hjá Austurbrú, um þetta mikilvæga fræðsluverkefni.
Hverjir sækja íslenskunámið hjá ykkur og hvaða ávinning sjá nemendur af því að læra málið?
„Nemendur okkar koma úr ólíkum áttum en eiga það sameiginlegt að vilja læra íslensku til að aðlagast samfélaginu betur. Þeim finnst auðveldara að tengjast fólki þegar þau geta átt samskipti á íslensku. Ég heyri oft frá þeim að þegar þau tala málið, þá finnst þeim þau fá meira viðurkenningu og að samfélagið taki þeim opnari örmum.“
Hvernig er kennslan skipulögð og hvernig tengist hún íslensku samfélagi og menningu?
„Við leggjum áherslu á að kennslan fari ekki eingöngu fram í kennslustofunni heldur líka úti í samfélaginu. Við blöndum saman íslenskukennslu og samfélagsfræðslu með heimsóknum, leikjum og viðburðum eins og hraðstefnumótum, þar sem nemendur
fá að tala við Íslendinga. Þótt nemendum finnist þetta krefjandi, þá hafa þau líka mjög gaman af því.“
Hvað eru margir að læra íslensku hjá Austurbrú og frá hvað mörgum þjóðernum?
„Á vorönn eru um 110 nemendur skráðir í íslenskunám hjá okkur. Við kennum á fjórum stöðum og bjóðum einnig upp á fjarnám. Nemendur okkar koma frá 16 mismunandi þjóðernum.“
Íslenskunámið hjá ykkur snýst ekki bara um tungumálið heldur líka um samfélagið og menninguna. Þið heimsóttuð nýlega kirkjuna á Norðfirði – hvernig tengist slík heimsókn náminu?
„Þegar við ræddum um hvað nemendurna langaði að skoða í Neskaupstað, komu þau sjálf með hugmyndina að fara í kirkjuna. Við höfðum samband við séra Benjamín Hrafn Böðvarson, sem tók vel á móti okkur og fræddi nemendur um kirkjuna og safnaðarheimilið. Það var áhugavert fyrir þau að bera saman íslenskar trúarhefðir og þær sem þau þekkja. Þeim fannst sérstaklega merkilegt að sjá prestinn í gallabuxum í stað hefðbundins messuskrúða. Heimsóknin varð mun lengri en við höfðum áætlað sem segir sitt um áhuga hópsins.“
Geturðu sagt mér eitthvað meira um þennan hóp sem er að læra í Neskaupstað núna?
„Já, við erum núna með fjörutíu tíma námskeið í gangi, Íslenska A1-2, sem lýkur í byrjun apríl. Hópurinn hefur verið saman áður og gott traust hefur myndast innan hans. Nemendur meta það að kennslan fari ekki alltaf fram í kennslustofu, heldur förum við út og upplifum íslenskt samfélag í návígi. Þegar við ljúkum námskeiði höldum við alltaf matarveislu, þar sem nemendur koma með mat frá sínum heimshlutum – það er dásamlegur lokapunktur. Þau eru jákvæð, leggja sig fram og eru tilbúin að stíga út fyrir þægindarammann, sem er mikilvægur þáttur í tungumálanámi.“
Íslenskunám Austurbrúar er mikilvægur þáttur í því að gera samfélagið á Austurlandi aðgengilegra fyrir innflytjendur. Námið fellur vel að markmiðum Svæðisskipulags Austurlands og Sóknaráætlunar Austurlands, sem leggja áherslu á að styrkja fjölbreytt og samheldið samfélag með virku aðgengi að menntun og þátttöku í samfélaginu.
Með því að tengja tungumálakennslu við íslenska menningu og daglegt líf, stuðlar Austurbrú að farsælli aðlögun innflytjenda á Austurlandi.
Úrsúla Manda Ármannsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn