Íslenskunám í Neskaupstað 2025. Prestur: Benjamín Hrafn Böðvarson.

Íslenskunámið hjá ykkur snýst ekki bara um tungumálið heldur líka um samfélagið og menninguna. Þið heimsóttuð nýlega kirkjuna á Norðfirði – hvernig tengist slík heimsókn náminu?

„Þegar við ræddum um hvað nemendurna langaði að skoða í Neskaupstað, komu þau sjálf með hugmyndina að fara í kirkjuna. Við höfðum samband við séra Benjamín Hrafn Böðvarson, sem tók vel á móti okkur og fræddi nemendur um kirkjuna og safnaðarheimilið. Það var áhugavert fyrir þau að bera saman íslenskar trúarhefðir og þær sem þau þekkja. Þeim fannst sérstaklega merkilegt að sjá prestinn í gallabuxum í stað hefðbundins messuskrúða. Heimsóknin varð mun lengri en við höfðum áætlað sem segir sitt um áhuga hópsins.“

Geturðu sagt mér eitthvað meira um þennan hóp sem er að læra í Neskaupstað núna?

„Já, við erum núna með fjörutíu tíma námskeið í gangi, Íslenska A1-2, sem lýkur í byrjun apríl. Hópurinn hefur verið saman áður og gott traust hefur myndast innan hans. Nemendur meta það að kennslan fari ekki alltaf fram í kennslustofu, heldur förum við út og upplifum íslenskt samfélag í návígi. Þegar við ljúkum námskeiði höldum við alltaf matarveislu, þar sem nemendur koma með mat frá sínum heimshlutum – það er dásamlegur lokapunktur. Þau eru jákvæð, leggja sig fram og eru tilbúin að stíga út fyrir þægindarammann, sem er mikilvægur þáttur í tungumálanámi.“