Djúpivogur

Í námi á vinnutíma

„Það er lítið mál að setja sig í spor nemanda sem þarf að sækja námskeið að kvöldi eftir langan og strangan vinnudag.“ – Berglind Einarsdóttir, íslenskukennari hjá Austurbrú.

Það hefur verið mikið um að vera í íslenskunáminu á Djúpavogi í haust. Þrjátíu og þrír nemendur hafa sótt námskeiðin og komust færri að en vildu. Berglind Einarsdóttir, íslenskukennari hjá Austurbrú, hefur haft umsjón með náminu. Hún hefur prófað sig áfram með nýjar aðferðir m.a. farið í samstarf við Búlandstind í þeim tilgangi að auðvelda nemendum að sækja sér íslenskukennslu.

„Stór hluti nemenda sækir námið á vinnutíma á vinnustaðnum,“ útskýrir Berglind og segir það afar þýðingarmikið. „Það er lítið mál að setja sig í spor nemanda sem þarf að sækja námskeið að kvöldi eftir langan og strangan vinnudag. Það getur verið mjög erfitt. Með þessu fyrirkomulagi hef ég heimsótt vinnustaðinn og notað kaffitímana til kennslu. Þetta hefur gengið mjög vel, nemendurnir eru orkumiklir og tilbúnir að læra,“ segir hún og bætir við að samstarfið við Búlandstind hafi verið sérlega gott.

Í desember hafa nemendurnir unnið að lokaverkefnum og höfum við fengið leyfi til að sýna nokkur verkefni á síðunni. „Nemendur fengu frjást val í gerð lokaverkefnisins,“ segir Berglind. „Hjá mér eru nokkrir Filippseyingar og í þeirra menningu er dans og söngur fyrirferðarmikill. Okkur fannst því upplagt að þau ynnu eitthvað með það og niðurstaðan voru myndbönd þar sem nemendur sýna nokkur vel valin dansspor og spreyta sig á íslensku í leiðinni.“

Framundan er meira nám hjá þessum hópi en eftir áramót hefjast ný námskeið.

Á næstu dögum munum við birta nokkur lokaverkefni hér á síðunni sem fyrr segir. Nemendur kynna sig í myndböndunum og sýna svo glæsilega danstakta!

Íslenskunám fyrir útlendinga – Lokaverkefni I

Íslenskunám fyrir útlendinga – Lokaverkefni II

Íslenskunám fyrir útlendinga – Lokaverkefni III

Nánari upplýsingar