Markmið
Upphaf verkefnisins má rekja til vorsins 2019 en þá hlaut Matarauður Austurlands styrk frá Matarauði Íslands, sem var tímabundið verkefni á vegum þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Markmið verkefnisins frá upphafi hefur verið að styðja við matvælaframleiðendur á Austurlandi og auka samstarf milli þeirra sem framleiða matinn og þeirra sem framreiða hann. Auk þess eru markmiðin þau að auka sýnileika austfirskra vara og koma þeim í austfirskar dagvöruverslanir. Frá árinu 2022 hefur markmið verkefnisins einnig verið það að styðja við framleiðendur vara úr austfirsku hráefni, annarra en matar. Áhersla er lögð á að varan sé úr austfirsku hráefni og/eða unnin á Austurlandi og skapi störf á svæðinu. Mikið er lagt upp úr árstíðabundnu hráefni, hollustu og virðinug fyrir hráefninu. Lokamarkmiðið er að Austurland verði eftirsóttur staður til að búa og heimsækja, þegar kemur að því að upplifa, borða mat og kaupa vörur af svæðinu.
Framvinda
Allt frá árinu 2019 hefur verkefnið stækkað og fleiri þátttakendur bæst í hópinn. Fjölbreytni framleiðenda eykst með hverju árinu og sýnileiki einnig. Haustið 2019 var fyrsta Matarmótið haldið, þar sem framleiðendur og söluaðilar matvæla hittust til að eiga samtal og síðan þá hefur Matarmótið verið haldið árlega og stækkað í hvert sinn. Nú má finna austfirskar matvörur í hluta dagvöruverslana á Austurlandi og er unnið að því að koma þeim í allar austfirskar verslanir. Vonir standa til þess að framleiðendur á svæðinu geti haft lífsviðurværi af framleiðslu sinni og skapað störf í fjórðungnum.
NánarFrekari upplýsingar

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

Signý Ormarsdóttir