Félag ljóðaunnenda á Austurlandi hlaut menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), sem tilkynnt var um á haustþingi sambandsins er haldið var í Fljótsdal í gær og í dag. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi, stofnun eða samtökum á Austurlandi fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar. Tólf tilnefningar bárust til menningarverðlauna SSA að þessu sinni.
Félag ljóðaunnenda á Austurlandi var stofnað á Stöðvarfirði 1996 og hefur verið eitt ötulasta útgáfufélag ljóðabóka á landinu frá aldamótum. Fyrsta bókin, Raddir að austan, var ljóðasafn austfirskra ljóðskálda en síðan þá hefur félagið gefið út ríflega fjörutíu bækur á starfstíma sínum og virðist hvergi nærri hætt. Auk bókaútgáfunnar stendur það fyrir reglulegum ljóðaviðburðum.
Félagið hefur gefið út mikið af fyrstu verkum höfunda auk þess sem áhersla er lögð á að bjarga og varðveita menningarverðmætum sem annars myndu glatast. Í tilnefningu segir „[…] þannig er hlúð að austfirskum skáldum, þekktum og óþekktum, og haldið í heiðri minningu þeirra austfirsku skálda sem látin eru.“ Þá er eftirtektarvert að stór hluti útgefinna bóka félagsins er eftir konur en gjarnan hallar á þær hjá öðrum forlögum.
Félagið er hæglátt og lætur lítið fyrir sér fara en hefur þó á síðustu árum vakið athygli fyrir afskaplega vandaðar bækur og gott starf. Þannig hlaut félagið sérstaka viðurkenningu Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2020.
Magnús Stefánsson er formaður félagsins og hefur stýrt því af krafti öll þessi ár. Hann segist sérstaklega ánægður með viðurkenninguna og að stuðningur heima í héraði hafa skipt sköpum fyrir félagið. Síðustu ári hafi Uppbyggingarsjóður Austurlands, ásamt sveitarfélögunum á Austurlandi, reynst félaginu vel og styrkt það til útgáfu sem annars hefði verið ómögulegt að ráðast í.
Haustþing SSA óskar félaginu hjartanlega til hamingju með verðlaunin.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn