Af hverju flytja ungar konur frá Austurlandi?
Niðurstöður rannsóknar á konum sem flutt hafa frá Austurlandi sýna að því sterkari sem tengsl kvennanna eru við bæinn sem þær fluttu frá því líklegra er að þær flytji aftur til baka. Þá skiptir einnig máli hversu snemma þær tengdust staðnum. Þetta eru meðal niðurstaðna rannsóknar sem Austurbrú gerði til að kanna ástæður brottflutnings kvenna frá Austurlandi og meta líkurnar á að þær snúi aftur.
Rannsóknin, sem var gerð 2021, beindist að brottfluttum konum á aldrinum 21 – 40 ára frá ýmsum stöðum af Austurlandi. Til samanburðar var horft til rannsóknar frá árinu 2016. Í flestum jaðarbyggðum eru konur færri en karlar, einkum í yngri aldurshópum, milli 20 – 40 ára. Kynjahlutfallið er víða skakkt, einkum í smæstu kjörnunum en í heildina eru karlar 53% íbúa Austurlands. Meirihluti kvennanna hefur ekki snúið aftur, aðeins 17 konur úr úrtakinu 2021 hafa snúið til baka, 14 á sama stað og flutt var frá og þrjár á annan stað en flutt var frá.
Til að samfélög þrífist þurfa að vera þar einstaklingar af öllum kynjum, ungt fólk og börn þannig að eðlileg endurnýjun verði. Þegar fólk á barneignaraldri vantar í samfélögin, aukast líkur á hnignun byggðar en ungt fólk hefur síðustu áratugi leitað í stærri samfélög og frá hinum dreifðu byggðum.
Konunum var skipt í tvo hópa, annars vegar þær konur sem fluttu frá Múlaþingi og hins vegar þær sem fluttu frá Fjarðabyggð.
Flestar konurnar fluttu burtu til þess að sækja nám, 53% frá Múlaþingi og 48% frá Fjarðabyggð.
Sterk tengsl voru hjá brottfluttu konunum sem voru fæddar og uppaldar á staðnum sem þær fluttu frá en þær sem höfðu flutt ungar á staðinn sem var flutt frá voru hins vegar líklegastar til að snúa aftur til baka. Er þetta í samræmi við það sem kemur fram í öðrum rannsóknum og greiningum um samspil þátta og áhrif búferlaflutninga. Af þessu má draga þá ályktun að miklu skipti að aðstoða aðflutt ung börn og ungt fólk að aðlagast sem fyrst samfélaginu til að styrkja tengslin og auka líkurnar á að þau snúi aftur ef þau flytja á brott.
Lítill munur var á niðurstöðum milli áranna 2016 og 2021 en í þeirri fyrri höfðu konur sem voru fæddar og uppaldar á staðnum sterkustu tengslin og voru líklegastar til að flytja aftur á staðinn sem flutt var frá. Í seinni könnuninni voru það þær sem fluttu ungar á staðinn sem höfðu sterkustu tengslin. Minnstu líkurnar voru frá þeim sem höfðu tengsl við staðinn í gegnum maka eða önnur tengsl.
Áhugavert var að sjá hversu mikill munur var á mati kvennanna á atvinnutækifærum. En almennt mátu þær atvinnutækifæri á Austurlandi fyrir karla mjög mikil á meðan atvinnutækifæri fyrir þær sjálfar og konur almennt voru færri. Konurnar (48%) sem fluttu frá Fjarðabyggð þótti þjónusta við barnafjölskyldur vera mikil. Afþreyingu, menningu og almenn lífsgæði voru mikil samkvæmt 38% kvennanna sem fluttu frá Múlaþingi.
Meirihluti kvenna, bæði frá Múlaþingi og Fjarðabyggð, sögðu að almenningssamgöngur væru litlar. Konur úr Fjarðabyggð töldu verslun og þjónusta vera lítil. Konurnar töldu einnig að lítið aðgengi væri að húsnæði, átti það við um brottfluttar konur úr báðum sveitarfélögunum.
Aðeins 10% brottfluttra kvenna frá Múlaþingi töldu miklar líkur á því að snúa aftur og 13% brottfluttra kvenna úr Fjarðabyggð. Þó sýndu niðurstöðurnar að línuleg fylgni var á milli þess hve miklar líkur voru á því að konurnar myndu snúa aftur og hversu sterk tengsl þær höfðu við staðinn sem þær fluttu frá. Eftir því sem tengslin við staðinn voru meiri því meiri líkur voru á því að þær myndu snúa aftur.
Nánari niðurstöður má finna í lokaskýrslu.
Skoða lokaskýrsluFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn