Á aðalfundi SSA þann 3. júní 2021 kynntu ráðgjafar frá Alta framgang svæðisskipulagsverkefnis Austurlands og hvernig það hefur verið að mótast eftir að þráðurinn var tekinn aftur upp í byrjun árs 2021 þegar ný svæðisskipulagsnefnd kom saman en hún var skipuð eftir sameiningu sveitarfélaga.
Tilgangur svæðisskipulagsgerðarinnar er að marka sameiginlega langtíma framtíðarsýn og meginstefnu sveitarfélaganna fjögurra á Austurlandi í umhverfis- og byggðamálum, sem stuðlar að því að svæðið geti betur virkað sem landfræðileg, hagræn og félagsleg heild sem aftur styrkir byggðaþróun.
Nánar um svæðisskipulagiðÍ kynningu sinni lýstu ráðgjafar Alta hvernig uppbygging svæðisskipulags hefur verið að mótast, bæði hvað varðar viðfangsefni og framsetningu stefnu. Viðfangsefni eru flokkuð undir 4 svið með yfirskriftirnar: góð heimkynni, land tækifæra, sterkt samfélag og ævintýri líkast. Fyrir hvert viðfangsefni þessarar sviða verða sett markmið og leiðir að þeim. Sérstaklega verða dregnar fram leiðir sem snúa að áherslum í umhverfis- og skipulagsmálum.
Þá fór Alta yfir helstu sjónarmið og áherslur fyrir einstök viðfangsefni, sem fram hafa komið í umræðum á fundum nefndar til þessa. Sá efniviður verður ræddur og mótaður frekar á næstu mánuðum við mótun vinnslutillögu.
Í kynningunni var einnig farið yfir vinnuferli verkefnisins en það skiptist í fimm áfanga. Frumdrög hafa verið í vinnslu á fyrri hluta árs 2021 og vinnslutillaga verður til umfjöllunar á haustfundi SSA 2021. Vorið 2022 verður kynningartillaga til umfjöllunar hjá SSA, sveitarfélögum og umsagnaraðilum og á sama tíma verður tillagan kynnt almenningi. Á síðari hluta árs 2022 tekur við fullvinnsla tillögu og afgreiðsla til formlegrar auglýsingar með tilskildum athugasemdafresti. Lokaafgreiðsla nefndar, sveitarstjórna og Skipulagsstofnunar er svo áformuð á fyrri hluta árs 2023.
Á aðalfundinum var einnig kynning sviðsstjóra á Skipulagsstofnun um strauma í skipulagsmálum og mögulegt hlutverk svæðisskipulags við framfylgd landsskipulagsstefnu. Þá kynnti skipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins reynslu af framfylgd svæðisskipulags þar.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn