Listakonan Rán Flygenring hefur nýverið lokið við myndverk sem prýða landganginn á Seyðisfirði. Um er að ræða samstarfsverkefni Austurbrúar, Seyðisfjarðarhafnar, Seyðisfjarðarkaupsstaðar og listakonunnnar sem snýr að því að hönnun innkomuleiðar inn í landshlutann með tilvísun til áherslna Áfangastaðarins Austurlands en verkefnið er styrkt af SSA.
Jónína Brynjólfsdóttir, verkefnisstjóri hjá Austurbrú, segir að ætlunin sé að ferðmennirnir upplifi Austurland og Ísland strax við komuna til landsins á skemmtilegan hátt – og raunar við brottför líka. „Við hófum undirbúninginn að þessu verkefni í byrjun sumars og fengum síðan Rán Flygering til þess að hanna og teikna myndirnar,“ segir Jónína. „Verkefni snýr að því að hanna ákveðna upplifun þegar gestir koma með skipum, ganga landganginn og fara í gegnum móttökuna á Seyðisfjarðarhöfn. Við höfum svo hugsað okkur að nýta þetta verkefni víðar í fjórðungnum; á flugvellinum og í þeim höfnum sem skemmtiferðaskip hafa viðkomu.“
Jónína Brá Árnadóttir er atvinnu-, menningar- og íþróttafulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar. „Rán nær að koma nauðsynlegum upplýsingum áfram til ferðamanna með skýru og skemmtilegu myndmáli á sama tíma sem að teikningarnar fanga anda og stemmningu svæðisins,“ segir Jónína. „Myndmál er líka svo frábært að því leyti að flestir skilja það og nær verkefni sem þetta því til miklu stærri hóps heldur en bundið mál eða texti á vegg sem er kannski bara á einu eða tveimur tungumálum. Á Seyðisfirði viljum við taka vel á móti okkar gestum og þetta er svo sannarlega liður í því að bjóða fólk hjartanlega velkomið og upplýsa það eins vel og við getum.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn