Lögreglustjórinn á Austurlandi, sýslumaðurinn á Austurlandi, sveitarfélögin Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur, Múlaþing og Vopnafjarðarhreppur, Austurbrú – Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Austurlandsprófastsdæmi, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Verkmenntaskólinn á Egilsstöðum og Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands hafa ákveðið að vinna saman gegn ofbeldi og öðrum afbrotum undir heitinu Öruggara Austurland.
Undirrituð var samstarfsyfirlýsing þess efnis um svæðisbundið samráð um afbrotavarnir á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum þann 4. október sl. Er samstarfsyfirlýsingin um Öruggara Austurland sú fyrsta af sínu tagi.
Samstarfsaðilar hafa farið yfir stöðuna á Austurlandi s.s. varðandi núverandi samvinnu, upplýsingar frá sveitarfélögunum, tölfræði lögreglu, upplýsingar úr þolendakönnun lögreglu, niðurstöður Rannsókna og greininga og upplýsingar frá vinnufundi samstarfsaðila sem haldin var þann 20. mars 2023. Niðurstöður benda til að mikil forvarnarvinna sé unnin á Austurlandi af hendi hinna ýmsu aðila en tækifæri eru til að bæta upplýsingaflæði milli samstarfsaðila, efla nánara samstarf og efla lykilaðila enn frekar vegna afbrota- og ofbeldisvarna. Einnig eru tækifæri til að styrkja samvinnu samstarfsaðila á svæðinu til að takast á við ofbeldi og áföll. Við þessa vinnu kom sterkt fram að samstarfsaðilar eru reiðubúnir til að vinna saman að stofnun samráðsvettvangs, bæta enn frekar þjónustu við íbúana í þessum málaflokki og vinna í sameiningu markvisst að öruggara Austurlandi.
Markmið svæðisbundna samráðsins um Öruggara Austurland verða m.a. að vinna enn markvissara að öryggi íbúa, auka skilning á ofbeldi og skaðsemi þess, efla samstarfsaðila í að takast á við áföll og ofbeldi, vinna í takt við önnur verkefni í almannaþágu, s.s. innleiðingar á farsæld barna, lýðheilsuvísa, áætlanir sveitarfélaga o.fl. Á fundinum var farið yfir lykiltölur vegna afbrota á svæðinu, með áherslu á börn og ofbeldi og lögð verður sérstök áhersla á börn og ungmenni í samráðinu.
Ásdís Helga Bjarnadóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn