Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA, skrifar:
Áramót gefa okkur tækifæri til að horfa yfir farinn veg og móta metnaðarfulla stefnu fyrir komandi ár. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) leggur áfram mikla áherslu á að málflutningur fjórðungsins byggist á faglegum og traustum gögnum sem sýna glögglega hve kraftmikill og mikilvægur landshlutinn er í efnahagslegu tilliti.
Sú vitneskja okkar heimamanna varð driffjöður þess að ráðist var í greiningu á efnahagsumsvifum Austurlands árið 2023 þegar von var á ríkisstjórn Íslands austur á land. Á þeim mikilvæga fundi lögðum við áherslu á lykilgögn sem sýndu með skýrum hætti mikilvægi Austurlands fyrir þjóðarbúið. Greiningin vakti verðskuldaða athygli og dreifingu.
Nú eru tvö ár liðin og stjórn SSA ákvað í byrjun árs 2025 að fá Analytica aftur að borði til að uppfæra greininguna, svo unnt væri að sýna stöðugleika efnahagsumsvifanna milli ára og mikilvægi þess að tryggja myndarlegar framkvæmdir í samgönguinnviðum. Nýuppfærð greining yfir tímabilið 2022–2024 var birt á heimasíðu Austurbrúar í lok nóvember 2025.
Niðurstöðurnar eru afdráttarlausar og sýna áframhaldandi vöxt í verðmætasköpun. Íbúar Austurlands, um 3% landsmanna, standa undir tæpum fjórðungi allra vöruútflutningstekna þjóðarinnar, um 240 milljörðum króna árlega. Undirstöður atvinnulífsins eru traustar og niðurstöðurnar staðfesta mikilvægi fjórðungsins varðandi vöruútflutningstekjur, orkuframleiðslu og fjölbreytta atvinnustarfsemi.
Ríkisstjórninni ætti því að vera ljóst hve mikilvægt er að fjárfesta myndarlega í Austurlandi. En þrátt fyrir myndarlegt framlag situr landshlutinn eftir í nýkynntum drögum að samgönguáætlun. Í samgönguáætlun 2020–2024 komu takmarkaðar framkvæmdir inn á Austurland og í þriggja milljarða króna aukafjárveitingu sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið sumar fékk umdæmissvæði SSA einungis um 90 milljónir króna.
Vonir voru því bundnar við þá samgönguáætlun sem liggur fyrir Alþingi en kynning hennar sýndi því miður engar stórframkvæmdir á fyrsta tímabili. Það er alvarlegt og ósanngjarnt gagnvart svæði sem leggur svo mikið til þjóðarbúsins.
Til að tryggja áframhaldandi verðmætasköpun þarf samgöngukerfi sem stenst kröfur nútímans. Í dag þolir vegakerfi Austurlands illa þungaflutninga, tengir svæðið ekki nægilega vel saman sem eitt atvinnu- og þjónustusvæði og tryggir hvorki íbúum né fyrirtækjum ásættanlegt öryggi.
Austfirðingar sækja atvinnu, menntun og þjónustu um allan fjórðunginn. Öruggar samgöngur allt árið eru því afar mikilvægar íbúum Austurlands og eru einnig forsenda þess að við getum áfram staðið undir þeirri miklu verðmætasköpun sem þjóðarbúið byggir á.
Samtakamáttur Austurlands er því lykilatriði í áframhaldandi sókn. Hann endurspeglast í Svæðisskipulagi Austurlands 2022–2044 og í nýlegri sameiginlegri bókun Fjarðabyggðar og Múlaþings sem stjórn SSA gerði að sinni. Þar stendur allt Austurland saman með skýra framtíðarsýn.
Með traustum faglegum gögnum og samstöðu sveitarfélaganna og SSA er nú komið að þingmönnum að axla ábyrgð og leiðrétta hlut Austurlands þegar samgönguáætlunin verður tekin til þinglegrar meðferðar á nýju ári. Áframhaldandi samtakamáttur sveitarfélaganna og ekki síður öflug rödd íbúa skiptir máli og skapar nauðsynlegan þrýsting á að stórar framkvæmdir hefjist strax á fyrsta tímabili nýrrar samgönguáætlunar.
Að lokum vil ég óska öllum Austfirðingum farsældar og gæfu á nýju ári og þakka fyrir öfluga samstöðu íbúa og stjórnar SSA á árinu sem er að líða.
Saman tryggjum við öflugt Austurland.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn