Það er einstaklega gaman að sjá verkefni sem Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur styrkt verða að veruleika en listviðburðurinn „Sæhjarta – sögur af umbreytingu“ verður í Sláturhúsinu, menningarmiðstöðinni á Egilsstöðum og í Herðubreið á Seyðisfirði um aðra helgi. Sýningin er afrakstur vinnu tuttugu og fimm kvenna, búsettar á fimm stöðum á Austurlandi, frá nítján mismunandi löndum. Þær hafa hist reglulega síðustu mánuði og deilt sögum sín á milli sem varpa ljósi á reynslu innflytjenda á Íslandi og ekki síst á Austurlandi. Lokahnykkurinn er einleiksverk Tess Rivarola, í leikstjórn Gretu Clough auk innsetningar sem unnin er af öllum þátttakendum verkefnisins.
Þetta er eitt fjölmargra menningarverkefna sem Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur styrkt á síðustu árum og það er okkur mikið metnaðarmál að Uppbyggingarsjóðurinn haldi áfram að vera öflugur bakhjarl menningarlífs í landshlutanum. Austurbrú minnir á að enn er opið fyrir umsóknir í sjóðinn og síðustu vinnustofurnar verða haldnar 20. október og þá verður bæði boðið upp á staðfund og fjarfund. Sjá viðburð á Facebook.
Austurbrú hvetur fólk sem ætlar að sækja um í sjóðinn til að nýta vinnustofurnar. Á þeim gefst fólki tækifæri til að ræða um verkefnin sín við starfsmenn Austurbrúar og fá góð ráð um gerð vandaðrar umsóknar. Við vitum af reynslu að þátttaka í vinnustofunum skilar sér í betri árangri!
Frekari upplýsingar um vinnustofurnar má finna hér og Austurbrú minnir á að skráning er nauðsynleg.
Hlutverk Uppbyggingarsjóðs er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni sem falla að Sóknaráætlun Austurlands, auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarverkefna.
Úthlutun fyrir verkefnaárið 2026 fer fram í desember 2025 en opið verður fyrir umsóknir frá 17. september til 22. október. Sjóðurinn er samkeppnissjóður og miðast styrkveitingar við árið 2026.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn